„Ekki sjálfgefið að kvótinn aukist“

19.04.2017 - 16:18
Það er líklega full snemmt fyrir útvegsmenn að fagna þó að stofnvísitala þorsks hafi ekki mælst hærri frá upphafi rannsókna því ekki er sjálfgefið að þorskkvótinn verði aukinn á næsta fiskveiðiári. Óvissa er um hegðun loðnunnar í nánustu framtíð. Ef hún myndi hætta að ganga upp að landinu gæti það haft alvarlegar afleiðingar.

Útvegsmenn fagna ákaft vegna nýjustu frétta af þorskinum. Fréttirnar eru að stofnvísitala þorsk hefur hækkað nær samfellt frá árinu 2007 og mælist nú sú hæsta frá upphafi mælinga 1985.

„Þetta þýðir það að sú nýtingarstefna sem hefur verið rekin á undanförnum árum virðist vera að skila árangri. Það hefur verið sígandi lukka í þessari þróun. Stofninn virðist vera hægt og rólega að aukast. Þannig að þetta eru mjög jákvæðar fréttir,“segir Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarlífríkissviðs á Hafrannsóknarstofnun.

Niðurstöður stofnmælinga botnfiska á Íslandsmiðum voru  birtar var í gær. Niðurstöðurnar eru úr svokölluðu marsralli stofnunarinnar. Hafrannsóknastofnun ákveður júní hvert aflamarkið verður á næsta fiskveiðiári sem hefst 1. september. Ákvörðunin stendur því það er liðin tíð að sjávarútvegsráðherrar geti bætt í kvótann. Ákveðin aflaregla er í gildi sem stjórnvöld hafa samþykkt að fara eftir fram til ársins 2020. Þegar kemur að stofnmatinu er tekið tillit til haustrallsins og þess sem farið var í síðasta mánuði og líka sýnatökum úr afla skipa. Þess vegna er ekki gefið, þrátt fyrir góð tíðindi af þorskinum, að kvótinn verði aukinn.

„Nei, þetta þarf ekki að þýða það. Ef fólk man eftir stofnmælingum í haust þá var vísitalna þar niður á við. Stofnmatið og ráðgjöfin hvílir ekki bara á mælingunum í mars heldur líka mælingunum í haust, sýnatökum og fleiri rannsóknum. Þannig að það er ekki sjálfgefið að þessi aukning sem við sjáum nú skili sér beint í ráðlögðu aflamarki, segir Guðmundur.

 

Mynd með færslu
 Mynd: National Oceanic and Atmospheric  -  RÚV
Svartgóma

 

Hafa áhyggjur af loðnunni

Í marsrallinu er hitastig sjávar líka mælt og það getur skipt miklu máli. Upp úr aldamótum síðustu fór að bera á suðrænum fisktegundum við sunnanvert landið. Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að vart hafi orðið við silfurkóða ,svartgómu og litlu bromsu. Fyrstu 15 árin fengust aðeins stakir fiskar af þessum uppruna en í seinni tíð hafa þeir verið taldir í hundruðum. Minna hefur fengist af silfurkóða síðustu þrjú ár en svartgóma og litla bromsa virðast hafa fest sig í sessi. En er útlit fyrir að þessar tegundir verði í veiðanlegu magni?

„Við sjáum ekkert núna sem bendir til þess að þetta verið veiðanlegar tegundir, að minnsta kosti ekki hvað botnfiska varðar. Helsta sem gerst er þessi stóraukna makrílgengd. Hins vegar hefur útbreiðsla þeirra stofna sem við höfum verið að breytast. Við erum að sjá ýsuna fyrir norðan land. Tegundir sem við tengjum við hlýja sjóinn fyrir sunnan land eru nú meira áberandi fyrir vestan og norðan land. Það sem við höfum mestar áhyggjur af varðandi þessar breytingar eru breytingar á göngum loðnunnar. Ef sú breyting verður mikil þá er spurning um æti fyrir botnfiskstofnanna. Ef að loðna hættir að ganga að landinu , sem við sjáum reyndar ekki alveg á næstunni, myndi það hafa alvarlegar afleiðingar,“ segir Guðmundur.

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi