Ekki sátt um framsal fullveldis

17.02.2016 - 19:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki náðist sátt um framsal fullveldis í starfi stjórnarskrárnefndar. Samkomulag tókst um auðlindir og náttúru landsins og um það lágmark sem þarf til að hægt sé að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um lög.

 

Heimildir fréttastofu herma að nefndin hafi náð sátt um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem kveðið sé á um að 15% atkvæðisbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi. Þá hefur fréttastofan heimildir fyrir því að sátt hafi tekist um auðlindir, að þær séu í eigu þjóðarinnar og eðlilegt gjald komi fyrir nýtingu þeirra. Þá eru nefndarmenn sammála um að náttúrunnar og umhverfisins verði getið í stjórnarskrá þar sem kveðið sé á um að náttúran sé á ábyrgð allra og að gengið sé um hana með sjálfbærum hætti.  Ekki náðist hins vegar sátt um fjórða atriðið, sem er framsal fullveldis. Stjórnarskrárnefnd kemur aftur saman til fundar á morgun.  Stefnt er að því að hún skili af sér tillögunum fyrir helgi.  Birgitta  Jónsdóttir Pírati segir að mikilvægt sé að halda því til haga að fulltrúa Pírata hafi tekist að ná því í gegn að liðlega tveggja vikna umsagnartímabil taki þá við. Hún fagnar því að atkvæði verði greidd um hverja tillögu fyrir sig.  Hún er þó ekki sátt við hlutfallið sem þarf til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ég er persónulega ósátt við það. Það var mjög skýrt hjá stjórnlagaráði og það sem var lagt fyrir þjóðina á sínum tíma var að þetta væri 10%. Það er hægt að lifa með þessum 15%, en það sem ég og Píratar höfum gagnrýnt mun meira er þröskuldur á þátttöku sem er mjög hár og talin ólýðræðislegur, meðal annars af Feneyjanefndinni,“ segir Birgitta.

Þar vísar hún í að þátttakan þurfi að vera að minnsta kosti 25% og því geti verið hægt að hafna máli með því að sitja heima. Ekki eigi að setja slíkar skorður á lýðræðið. Sjálf segist hún eiga erfitt með að sætta sig við tillögurnar, en rétt sé að bera undir grasrót Pírata hvort samþykkja eigi tillögurnar eða hafna. Hvað varðar auðlindirnar er talað um að eðlilegt gjald komi fyrir nýtingu þeirra. 

„Það er nákvæmlega það sem ég vil fara ítarlega yfir með lögspekingum . Það eru margir sem telja að það sé betra að hafa þetta svona. Það eru reyndar tveir varnaglar, bæði að jafnaði og eðlilegt gjald í staðinn fyrir fullt gjald. Ég er ekki nógu lögfróð til að geta sagt með afgreandi hætti hvort er betra eða verra og vil kalla til ráðgjafa og þess vegna höfum við lagt svo mikla áherslu á að það sé gefinn tími.“

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV