Ekki samkeppnishæfir vegir á Vestfjörðum

05.06.2016 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vöruflutningar hafa aukist mikið með tilkomu vaxandi fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum. Framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækis segir áríðandi að flutningsleið bílanna verði bætt til að tryggja samkeppnisstöðu eins og annars staðar á landinu.

Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax á Bíldudal hóf slátrun á laxi í vetur.  Ekið er með allan lax til Reykjavíkur, allt að fimmtán sinnum í viku. Þaðan fer laxinn í útskipun eða flug. Flutningsleiðin hefur reynst fiskeldisfyrirtækjum erfið í vetur. „Við höfum misst bíla útaf veginum, fests í drullu sem getur seinkað því að við komum vörunum okkar á markað,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax.

„Þetta er allt flutt ferskt og ef við komum ekki afurðunum af stað þá er það eina sem við getum gert er að frysta þær. Og það höfum við gert í vetur. Og þar af leiðandi fáum við lægra verð fyrir þær,“  segir Víkingur. 

Í tillögu að samgönguáætlun er gert ráð fyrir endurbótum á Vestfjarðarvegi um Gufudalssveit, Dýrafjarðargöngum og endurbótum á veginum um Dynjandisheiði.  Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir umbótum á veginum af Dynjandisheiði ofan í Trostansfjörð og þaðan yfir á Bíldudal en íbúar og atvinnurekendur á svæðinu telja það lykilatriði í að styrkja fjórðunginn sem eitt atvinnusvæði.

„Við erum þegar búnir að ákveða að setja upp sams konar fyrirtæki í Bolungarvík,“ segir Víikingur. „Það er krafan sem við gerum að við fáum samkeppnisstöðu eins og annars staðar á landinu og vegina í lag. Það er aðalatriðið.

Friðbjörg Matthíasdóttir, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð, segir atvinnulífið að eflast og styrkjast. „Síðan er það náttúrlega tenging inn í ferðaþjónustunni sem er ekki síður mikilvæg. Þetta er náttúrlega mjög gamall vegur og dapur, og afskaplega þreyttur, vægt til orða tekið.“

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV