Ekki raunverulegt vopnahlé í Sýrlandi

12.02.2016 - 12:28
Women and children among Syrian refugees striking at the platform of Budapest Keleti railway station. Refugee crisis. Budapest, Hungary, Central Europe, 4 September 2015.
 Mynd: Mstyslav Chernov  -  Wikimedia
Tekist hefur að semja um svokallað „hlé á átökum" í Sýrlandi en orðalagið er loðið og þetta er ekki eiginlegt vopnahlé. Bæði Bandaríkjamenn og Rússar ætla að halda loftárásum sínum áfram á ákveðnum stöðum og nokkrar stærstu fylkingar uppreisnarmanna eru ekki hluti af samkomulaginu.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að samningar hafi tekist um gera hlé á átökum stríðandi fylkinga í Sýrlandi og það taki gildi eftir eina viku. Samkomulagið náðist á fundi nokkurra þátttakenda í stríðsrekstrinum en það nær ekki til baráttunnar gegn Íslamska ríkinu og al-Nusra samtakanna, sem er angi af Al Kaída-hryðjuverkanetinu. Þá fengu Kúrdar ekki sæti við samningaborðið vegna andstöðu Tyrkja.

Það vekur athygli að orðalag samkomulagsins er loðið og það er líklega með vilja gert. Þegar samið er um bindandi vopnahlé, eða „ceasefire" á ensku, fylgja því ákveðnar skuldbindingar um eftirlit og sannanir. Ekkert slíkt fyrirkomulag er fyrir hendi og því hefur samkomulagið takmarkað gildi. 

Rússar, Bandaríkjamenn og Sýrlandsstjórn munu halda áfram að herja á þær fylkingar sem ekki eru hluti af samkomulaginu.  Það eru sem fyrr sagði hið svokallaða Íslamska ríki, al Nusra samtökin og varnarsveitir Kúrda. Þetta eru stærstu og öflugustu fylkingar uppreisnarmanna og því er lítil von um að bardögum ljúki þó að samkomulagið taki gildi eftir viku. Boðað hefur verið til frekari viðræðna um raunverulegt vopnahlé síðar í þessum mánuði.

 

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV