Ekki nóg gert til að auka jöfnuð og byggja upp

31.03.2017 - 20:05
Ríkisstjórnin boðar aukið fjármagn til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála á næstu fimm árum. Stjórnarandstaðan telur ekki nóg gert til að auka jöfnuð og koma til móts við kröfu almennings um að setja heilbrigðisþjónustu í forgang.

Útgjöld til heilbrigðisþjónustu verða aukin um ríflega sextán milljarða króna, þar af fara um níu milljarðar í byggingu nýs Landspítala. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, bendir á að útgjöld til sjúkrahúsþjónustu aukast einungis um 338 milljónir á næsta ári. „Sem þýðir að óbreyttu niðurskurð væntanlega eða minni umsvif á sjúkrahúsinu á Akureyri og á Landspítalanum,“ segir Logi. „Í góðæri eins og nú er þá eiga menn að koma hér á félagslegum stöðugleika og nota tækifærið til að jafn skilyrði fólks í landinu, og það er ekki verið að gera það.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er á sama máli. „Það er vissulega aukning í heilbrigðismálum en stærsti hlutinn af því er bygging nýs spítala, sem er stofnkostnaður en ekki endilega aukning á þjónustunni sjálfri,“ segir Katrín. „Þessi áætlun er kyrrstöðuplagg. Það er ekki verið að boða þá sókn í uppbyggingu sem ég held að allir flokkar hafi lofað fyrir kosningar. Bæði hvað varðar heilbrigðismál, skólamál og samgöngumál. Það eru þannig aðstæður í efnahagslífinu að við höfum tækifæri til að ráðast í uppbyggingu svo fremi sem við treystum okkur til að standa undir þeirri uppbyggingu.“

„Ekkert svigrúm“

Samkvæmt fjármálaáætluninni verður unnið að því að vega á móti þenslu í hagkerfinu, stuðla að sátt á vinnumarkaði og taka á styrkingu krónunnar. Áhersla verður lögð á að greiða niður skuldir ríkissjóðs og skapa hagstæð skilyrði til lækkunar vaxta. Þá á að lækka rekstrarkostnað ríkisins með því að byggja framtíðarhúsnæði fyrir Stjórnarráðið. Áætlaður kostnaður eru þrír milljarðar króna. Gera á umbætur á skattkerfinu og lækka almennt þrep virðisaukaskattsins úr 24% í 22,5%. 

„Í fjármálastefnunni, sem þessi áætlun byggir á, er útgjaldaregla sem krefst þess að efnahagurinn bólgni stöðugt út til þess að það sé svigrúm til aðgerða, framkvæmda, uppbyggingar. Hætturnar sem eru fólgnar í þessu eru þær að þegar að það fer að halla undan fæti að þá þurfum við að grípa til niðurskurðar og höfum ekki svigrúm,“ segir Logi.