„Ekki mikið mál ef maður er með aðstöðuna“

20.01.2016 - 19:17
Heimilissorp sem er urðað á Akureyri hefur minnkað um hátt í helming síðan nýtt flokkunarkerfi var tekið upp í bænum. Það er lítið mál að flokka ef maður hefur aðstöðu til þess segir grunnskólakennari.

Akureyringar tóku upp nýtt kerfi við sorphirðu 2011 sem kallaði á aukna flokkun á heimilum. Áhersla var lögð á endurvinnslu og lífrænn úrgangur hafður sér. Ástrós Guðmundsdóttir og maður hennar höfðu flokkunina til hliðsjónar þegar þau gerðu upp eldhúsið. „Við erum með hérna flokkunarkerfi þar sem við flokkum pappa og plast, svona fernur og alls konar. Síðan erum við með almennt rusl sem fellur ekki undir hitt. Við erum með dósir og plast, plastflöskur, batterí og svo erum við með hérna lífrænt. Við leigjum tunnur sem þetta fer sérstaklega í,“ segir Ástrós.

Hún segir það ekki vandamál að flokka það rusl sem til fellur. „Það er í raun og veru ekki mikið mál ef maður er með aðstöðuna til að flokka. Ef maður er með litla ruslaskápa og þarf að taka mikið pláss í þvottahúsinu getur þetta verið flókið fyrir fólk sem hefur lítið pláss. En ef þú hefur alla dallana er þetta ekkert mál. Er flókið að ákveða hvað fer hvar? Ég þarf alveg stundum að hugsa og ég geri þetta örugglega ekki hundrað prósent en ég geri mitt besta til að gera þetta rétt. ))

Afraksturinn af flokkuninni og nýjum grenndarstöðvum lét ekki á sér standa. Verulega hefur dregið úr urðun sorps. „Það er helmingurinn sem fer í endurvinnslu af því sem áður var,“ segir Helgi Már Pálsson bæjartæknifræðingur. „Af þessum helming fer helmingurinn í lífrænt og helmingurinn þar á móti er svo endurvinnsluefni.“

Síðasta skrefið var að breyta skipulagi og gjaldheimtu á gámasvæðinu. Markmiðið var að auka flokkun og draga úr kostnaði. „Þetta gerðist eiginlega bara um leið og við byrjuðum. Vissulega var fólk kannski skeptískt á þetta en reyndin er í dag að ég heyri ekki betur en að flest allir séu jákvæðir gagnvart þessu.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV