Ekki ljóst hvort Baghdadi hafi særst

epa04973404 (FILE) An undated file image of a frame from video released by the Islamic State (IS) purportedly shows the caliph of the self-proclaimed Islamic State, Abu Bakr al-Baghdadi, giving a speech in an unknown location. Iraqi military on 11 October
Abu Bakr al-Baghdadi.  Mynd: EPA  -  EPA FILE/ISLAMIC STATE
Embættismenn í Írak og Bandaríkjunum kváðust í morgun ekki geta staðfest frétt íröksku sjónvarpsstöðvarinnar Al Sumariya um að Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins, hefði særst í loftárás í gær.

Al Sumariya sagðist hafa eftir heimildarmanni að Baghdadi og nokkrir aðrir forystumenn Íslamska ríkisins hefðu særst í loftárás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra á eina af stjórnstöðvum samtakanna í Nineveh-héraði í norðurhluta Íraks, nærri sýrlensku landamærunum.

Fréttastofan Reuters segir að Al Sumariya hafi góð samskipti við stjórnmálamenn úr röðum súnníta í Írak og foringja hersveita sem berjist gegn Íslamska ríkinu. Reuters bendir hins vegar á að nokkrum sinnum hafi verið fullyrt í fréttum að Baghdadi hafi fallið eða særst án þess að það hafi átt við rök að styðjast. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV