Ekki jafn dimmt og kalt og þau héldu

19.01.2016 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir
Fyrsti hópur sýrlenska flóttafólksins, sem boðin hefur verið búseta hér á landi, kom til landsins síðdegis í dag. Fjölskyldurnar eru sex, 13 fullorðnir og 22 börn. Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur hjá velferðarráðuneytinu, flaug með hópnum heim í dag. Hún segir að þau séu alsæl og spennt fyrir því að komast heim. Hér sé ekki jafn kalt og dimmt og þau héldu.

Linda hitti hópinn í París í morgun. „Þau eru þreytt en þau eru ofboðslega jákvæð og þau eru spennt yfir þessum nýju heimkynnum sínum og þau voru búin að vera með miklar pælingar í kringum Ísland og hvernig þetta yrði. Þau voru mjög ánægð að koma og það var ennþá dagsbirta. Þau höfðu séð svona frekar dimmar myndir af Íslandi. Núna er hópurinn bara þreyttur og glaður á leiðinni á Reykjavíkurflugvöll.“

Linda segir að ferðalagið hafi verið langt og strangt en það séu allir spenntir að komast heim. „Þetta hefur bara verið mjög skemmtilegt og þegar ég hitti þau í París þá voru þau alsæl og það var mikið stuð að spila á fiðlu, Íslenska sendiráðið hafði komið og hitt þau og gefið þeim mat og ég held að þetta sé alveg orðið gott hjá þeim núna en það er hugur í þeim og Þau eru tilbúin að fara norður þótt það aðeins lengri tíma. Þau vilja bara drífa sig heim. Við buðum þeim að fara á hótel en þau vildu bara komast heim til sín,“ segir Linda. 

Hún segir að fjölskyldurnar hafi verið mjög duglegar að fræðast um Ísland á netinu og hafi því vitað ýmislegt um landið. „Kuldinn kemur ekki mjög á óvart. Þau voru vel undirbúin og voru vel dúðuð og mikið klædd, jafnvel í flugvélinni sjálfri.“

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir