Ekki ferðaveður austan til á landinu í kvöld

15.02.2016 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Suðaustan 15-25 m/s er spáð síðdegis og fram á nótt á austanverðu landinu. Veðrinu fylgja hlýindi og því slydda og rigning í kortunum. Það hlýnar fram eftir degi og þykknar upp með slyddu í kvöld og nótt. Hláka á vegum og versnandi færð. Ekkert ferðaveður verður á fjallvegum austanlands seinni partinn og fram á nótt. Farið er að hvessa á fjallvegum á Austurlandi og bætir í eftir því sem líður á daginn. Enn eru fjallvegir opnir en vegfarendum er bent á að fylgjast með á færð á vegum.

Lægðin fer vestan við landið og dýpkar yfir landinu en verður ekki sérstaklega langvinn, samkvæmt Elínu Björk Guðjónsdóttur sérfræðingi á Veðurstofu Íslands. Norðaustanlands verða svipuð hlýindi með suðaustan 15-23 m/s  síðdegisog í nótt en gengur í suðvestan seint í nótt og kólnar. Það dregur úr vindi þegar líður á morgundaginn. 

Á austanverðu landinu verður ástandið orðið betra strax í fyrramálið verður suðvestan og vestan 5-13 og léttir til. Það verður 3 til 7 stiga hiti í kvöld, en kólnar aftur á morgun. Búast má við einhverri úrkomu á morgun en suðaustanlands verður orðið þurrt að kalla þegar líður á daginn. Frost 2 til 5 stig annað kvöld.

 

Talsverð úrkoma á landinu öllu

Sunnan og vestanlands verður væg þíða til kvölds og talsverð úrkoma rigning, en bleyturhríð á fjallvegum og sums staðar skafrenningur. Lægir mikið um vestanvert landið síðdegis og í kvöld þar um leið og lægðarmiðjan fer yfir, en snýst í hvassa V-átt snemma í nótt með éljum og kólnandi veðri.

 

Mynd með færslu
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV