Eiturherferð gegn Zika-veirunni í Brasilíu

12.02.2016 - 02:49
epa05152819 Aedes Aegypti mosquitos, which transmit dengue fever and Zika virus, are pictured at the International Atomic Energy Agency (IAEA) Insect Pest Control Laboratory in Seibersdorf, Austria, 10 February 2016. Several Latin American countries
Ekkert bóluefni hefur enn fundist gegn Zika-veirunni, þess er þó leitað á fjölmörgum rannsóknarstofum víða um heim.  Mynd: EPA
Sannkölluð herferð gegn útbreiðslu Zika-veirunnar stendur fyrir dyrum í Brasilíu. Á laugardag munu um 220.000 hermenn ganga hús úr húsi í 350 borgum bæjum og sveitum landsins og dreifa upplýsingabæklingum um veiruna og varnir gegn henni inn á þrjár milljónir heimila. Þar er meðal annars útskýrt að moskítóflugurnar sem dreifa henni fjölgi sér iðulega inni á heimilum fólks, en lirfur þeirra þrífast til dæmis ágætlega í stöðnu vatni í vökvunarkönnum og blómapottum.

Á fréttamannafundi í gær sagði Aldo Rebelo, varnarmálaráðherra landsins, nauðsynlegt að grípa til róttækra aðgerða gegn þessum vágesti. Vernda þurfi borgarana, sér í lagi barnshafandi konur, en einnig íþrótta- og ferðafólk sem koma mun til landsins í ágúst, þegar Ólympíuleikarnir verða haldnir í Ríó de Janeiro. 

Eiturhernaður framundan

50.000 hermenn og fjölmargir starfsmenn heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna munu síðan vinna við það sleitulaust, frá mánudegi til fimmtudags, að úða heimili fólks með skordýraeitri, til höfuðs Aedes aegypti-flugunni. Sú skaðræðisskepna dreifir ekki aðeins Zika-veirunni, heldur einnig beinbrunasótt (Dengue), gulu og fleiri pestum.

Rebelo, sem áður gegndi stöðu íþróttamálaráðherra, fullyrti að þessar og fleiri aðgerðir stjórnvalda, ásamt þeirri staðreynd að vetur ríkir í Ríó í ágúst, dugi til að halda Zika-veirunni í skefjum meðan á leikunum stendur. Hann greindi einnig frá því að herinn hefði þegar úðað tugþúsundir heimila í Sao Paulo-ríki með moskító- og lirfueitri. 863 dóu af beinbrunasótt í Brasilíu í fyrra, flestir þeirra í Sao Paulo-ríki. 

Um 1,5 milljónir manna hafa smitast af Zika-veirunni í Brasilíu síðan faraldurinn braust út snemma árs 2015. Aðeins þrír hafa látist af völdum veirusjúkdómsins og fæstir veikjast alvarlega. Hins vegar er nær fullvíst talið að rekja megi fjölda fósturskaða, sem verður til þess að börn fæðast með dverghöfuð, til Zika-smits á meðgöngu. Staðfest er að mæður 404 barna sem fæðst hafa með dverghöfuð á þessum tíma smituðust af Zika-veirunni, 3.670 tilfelli til viðbótar eru í rannsókn.