Eitthvað að ef ekki má gagnrýna

23.02.2016 - 08:20
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins ætlar ekki að styðja nýgerðan búvörusamning stjórnvalda við bændur. Hún bendir á að Efnahags- og framfarastofnunin OECD telji búvörusamninginn íþyngjandi fyrir íslenska neytendur og skattgreiðendur.

Ragnheiður sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að ýmislegt jákvætt væri að finna í nýundirrituðum búvörusamningi, en bendir þó á að frá 2011 hafi Efnahags- og framfarastofnunin gert athugasemdir við stuðning íslenskra stjórnvalda við íslenskan landbúnað:

„Hún hefur talað um að Ísland þurfi að draga úr stuðningi við landbúnaðarmál, stuðningurinn sé íþyngjandi fyrir neytendur og skattgreiðendur, auk þess sem hann hamli framleiðslu. Ef að dregið sé úr stuðningi muni það hafa í för með sér lækkun matvælaverðs til hagsbóta fyrir tekjulægri heimili og það hefur líka komið fram að það þurfi að lækka tolla og gjöld og leggja niður framleiðslukvóta og svo framvegis.“

Ragnheiður bendir á að í þessum búvörusamningi séu fjórir samningar undir; samningur við Bændasamtökin, auk þess sem undirritaðir hafi verið samningar um starfskilyrði framleiðenda garðyrkju-, nautgripa- og sauðfjárræktar.

Ragnheiður gagnrýnir samningslengdina sem bindi ríkisstjórnir næstu 2ja kjörtímabila, bindi hendur ríkisins og nánast hendur Alþingis með föstum fjárveitingum.

„Ef að samningar sem eiga að gilda í tíu ár, sem hljóða upp á 140 til 150 milljarða, eru þess eðlis að það megi hvorki gagnrýna né hafa skoðun á honum eða vera andsnúin eða sammála, þá er eitthvað töluvert að í okkar samfélagi.“

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV