Eitt umtalaðasta morðmál síðasta áratugar

20.01.2016 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dauði Alexanders Litvinenkos, fyrrum njósnara rússnesku leyniþjónustunnar, er meðal umtöluðustu morðmála síðasta áratugar. Bresk yfirvöld birta á fimmtudag, 21. janúar, skýrslu um rannsókn á morðinu. Litvinenko, sem myrtur var með geislavirka efninu Polonium-210, sagði á banabeðinu að Valdimír Pútín, forseti Rússlands, stæði á bak við morðið. Mennirnir sem grunaðir eru um morðið fást ekki framseldir til Bretlands. Annar þeirra er nú þingmaður og sjónvarpsstjarna.

Litvinenko  lést á sjúkrahúsi í London í nóvember 2006. Nokkrum dögum áður hafði hann fundað með tveimur löndum sínum sem síðar voru grunaðir um að hafa myrt hann.

Sakaði stjórnvöld um hryðjuverk

Litvinenko var 43 ára þegar hann lést - fæddur árið 1962. Hann starfaði fyrir rússnesku leyniþjónustuna - KGB og arftaka hennar - frá því í byrjun níunda áratugarins og fram að aldarmótum. Hann var sérfræðingur í skipulagðri glæpastarfsemi.

Árið 1998 hélt Litvinenko og aðrir meðlimir leyniþjónustunnar því fram að stjórnvöld hefðu fyrirskipað aftökuna á viðskiptajöfrinum Boris Berezovsky. Hann var handtekinn í kjölfarið, gefið að sök að hafa farið út fyrir starfssvið sitt. Hann var sýknaður ári síðar, seinna handtekinn aftur og leystur úr haldi þegar málinu var vísað frá árið 2000. Hann flúði í kjölfarið til Bretlands ásamt fjölskyldu sinni. Þar starfaði hann sem blaðamaður, rithöfundur og ráðgjafi fyrir fjárfesta og fyrir bresku leyniþjónustuna.

Árið 2002 var hann dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir spillingarbrot í Rússlandi en var ekki framseldur þangað. 

Geislavirkt te

1. nóvember 2006 hitti Litvinenko tvo landa sína - Andrei Lugovoi og Dmitri Kovtun, fyrrverandi njósnara. Þeir drukku te á hóteli í Lundúnum. Þremur dögum síðar leitaði Litvinenko á sjúkrahús vegna verkja og uppkasta.

Læknar gátu lítið gert fyrir Litvinenko. Hans beið hægur og kvalafullur dauði eftir því sem líffæri hans gáfu sig, eitt af öðru. Hann gat þó talað og ræddi við lögreglumenn og aðra menn, líklega starfsmenn bresku leyniþjónustunnar, meðan hann gat. Hann sagðist sannfærður um að þeir Kovtun og Lugovoi hafi eitrað fyrir sér og skrifaði bréf á dánarbeði sínu, þar sem hann sakaði Vladimír Pútín, forseta Rússlands, um að hafa fyrirskipað morðið. Hann lést 23. nóvember.

Vísindamenn í Bretlandi komust seinna að þeirri niðurstöðu að eitrað hafi verið fyrir Litvinenko með polonium. Í þætti Newsnight um málið kemur fram að þessi rannsókn á dauðaorsök hafi verið flókin og það hafi að vissu leyti verið fyrir hreina tilviljun að þessi uppgötvun var gerð. Vel hefði getað verið að dánarorsökin hefði aldrei uppgötvast og dauðsfallið rakið til óþekktra veikinda.

Rússnesk stjórnvöld hafa ætíð neitað aðild að morðinu.

Grunaður morðingi þingmaður í dag 

Dmitry Kovtun hefur lýst því yfir að hvorki hann né Lugovoi hafi ekki komið að morðinu. Árið 2010 gáfu Bretar úr alþjóðlega handtökuskipun á hendur rússneska kaupsýslumanninum Dmitry Kovtun. Hann hefur haldið sig í Rússlandi. 

Bretar hafa farið fram á að Andrei Lugovoi verði framseldur frá Rússlandi til að svara til saka. Ekki verður af því, þar sem hann nýtur friðhelgi. Lugovoi gekk árið 2007 til liðs við Frjálslynda lýðræðisflokkinn, flokk rússneska þjóðernissinnans Vladimirs Zhirinovskys, og situr nú í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins. 

Þá hefur Pútín, forseti Rússlands, veitt Lugovoi orðu fyrir þjónustu við föðurlandið.

Lugovoi hefur einnig starfað sem ráðgjafi við sjónvarpsþáttagerð, vegna sjónvarpsþáttaraðar um morðið. Lugovoi stýrir nú sjónvarpsþætti í Rússlandi sem heitir „Svikarar“ og fjallar um íbúa í Sovétríkjunum sem sneru baki við þeim og flúðu til Vesturlanda.