RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Eiraldin, ástarepli og aðrir ávextir

Allir þekkja íslensk heiti á ávöxtum eins og glóaldin og bjúgaldin þótt flestir tali heldur um appelsínur og banana. Til eru mörg ákaflega falleg íslensk heiti á ávöxtum. Sum þeirra hafa náð góðri fótfestu í málinu svo sem eggaldin og blæjuber en önnur eru óþekkt með öllu.

Aldin

Íðorðabankinn hefur að geyma orðasafn sem heitir Matarorð úr jurtaríkinu. Þar er meðal annars að finna íslensk heiti á flestum tegundum ávaxta. Orðið aldin er vinsælt í samsetningum ávaxtaheita og í orðasafninu eru 35 slík. Fæst þeirra hafa fest sig í sessi og það er ekki hægt að segja að þau séu sérlega lýsandi eða gagnsæ.

Það mætti til dæmis spyrja fólk hvort því finnist eiraldin bragðgóður ávöxtur og þess sama mætti spyrja um grænaldin. Það er þó hætt við að þá yrði fátt um svör. Öðru máli gegnir ef sömu spurningar væri spurt um apríkósur og lárperur, sem eru þekktari heiti á sömu ávöxtum.

Mörgum þykir erfitt að þekkja sundur súraldin, gulaldin og glóaldin en þetta eru íslensk heiti á þeim ávöxtum sem betur eru þekktir sem límóna, sítróna og appelsína. Það er athyglisvert að límóna skuli kallast súraldin, alla vega sé miðað við bragð, því að bragðið af þeim er ekki nærri eins súrt og af sítrónum.

Glóaldin er skínandi dæmi um mjög gott, fallegt og rammíslenskt nýyrði sem á ekki möguleika á að ná fótfestu af því að það er svo ógagnsætt. Fæstir tengja saman orð og mynd í huganum þegar þeir heyra orðið glóaldin. Appelsína er aftur á móti orð sem hefur fengið svo gagnsæja merkingu að við getum alltaf séð fyrir okkur appelsínugulan sítrusávöxt, þ.e. appelsínu, þegar við heyrum eða sjáum orðið.

Ljótaldin er ágætis heiti því að fólk tengir það við enskt heiti ávaxtarins, ugli, sem þykir heldur ólögulegur í útliti. Ljótaldin eru aftur á móti mjög bragðgóð svo ekki láta blekkjast af útlitinu. Það má svo velta því fyrir sér hvort það má ekki finna þessum ávexti einfaldara heiti, t.d. ljótur, eða örlítið jákvæðara eins og ófríður.

Mörg aldinheiti eru sérkennileg og erfitt að tengja þau við merkingu eða útlit. Heitið bjúgaldin, sem er banani, vísar til lögunar ávaxtarins en lýsingarorðið bjúgur merkir boginn og það er alls ekki víst að allir átti sig á því. Gallaldin er erfitt að tengja við kakíávöxtinn, sérstaklega ef maður þekkir hann ekki. Grænaldin vísar til litarins á lárperunni en þær eru samt alls ekkert alltaf grænar. Líklega þekkir enginn orðið grænaldin en lárperan hefur alveg fest sig í sessi auk þess sem oft er talað um avókadó.

Aldinheitið virðist aðeins hafa fest við þrjár ávaxtategundir, það eru stjörnualdin eða stjörnuávöxtur, eggaldin og ástaraldin. Það síðastnefnda er rangnefni því að á öðrum málum er ávöxturinn kenndur við passíu, þ.e. ástríðu eða píslir. Orðið greipaldin er líka nokkuð útbreitt.

Epli

Nokkuð algengt er að orðið epli sé notað sem seinni liður í ávaxtaheitum. Orðið epli er eldfornt og er til í ýmsum útgáfum í fjölmörgum indóevrópskum málum. Þó er talið að það sé ekki indóevrópskt að uppruna heldur sé það fornt farandorð sem hafi borist snemma inn í indóevrópska tungu.

Það eru til margvísleg epli, auk þessara venjulegu en þau eru ekki öll vel þekkt. Ástaraldinið sem fyrr var nefnt og er líka kallað píslaraldin hefur auk þess nafnið píslarepli.Ástarepli eru líka til.Heitin gerast nú ekki rómantískari, þangað til við áttum okkur á því að rómantíkin er fólgin í því að gefa elskunni sinni tómat. Jarðepli þekkja aftur á móti allir. Og granatepli hefur alveg fest sig í sessi.

Tröllepli er líka forvitnilegur ávöxtur. Tröllepli er melóna. Tröllaldin er aftur á móti greipaldin.

Ber

Það eru til fjölmörg forvitnileg ber. Kúmkvat, sem eru pínulítil og líta út eins og appelsínur, kallast beiskjuber, enda er bragðið af kjötinu beiskt en berin eru sæt séu þau etin með hýðinu. Blöðruber heitir líka kínverskt ljósker sem er mjög smart, en júðakirsiber er ekki eins smart.

Blæjuber er heiti á gulleitu beri, ættuðu frá Perú. Orðið blæjuber hefur náð góðri fótfestu enda er það afbragðsgott. Það er miklu betra en t.d. danska heitið ananaskirsebær.

Stóru amerísku bláberin heita á íslensku fenjabláber. Og svo eru þessi brúnu með hrjúfa yfirborðinu en hvítu kjöti og heita lychee á útlensku. Þau heita litkaber á íslensku en það er orð sem hefur ekki fengið nokkra einustu athygli.

Eitt skemmtilegasta berjaheitið er loðber. Það er líka nokkuð lýsandi og flestir átta sig á því við hvaða ávöxt það á. Kívíávöxturinn, öðru nafni loðberið, er nefnilega brúnn og loðinn.

Aðlögun tökuorða

Mörg ávaxtaheiti úr erlendum málum hafa lagað sig alveg ágætlega að íslensku. Apríkósa, ferskja, melóna, banani, ananas, kúrbítur (af courgette) – sem er oft kallaður zucchini sem ekki fellur svo vel að íslensku. En latneska heitið er cucurbita og þaðan er íslenska heitið komið. Og reyndar það finnska líka því að á finnsku heitir hann kurpitsa.

Og af því að það líður brátt að hrekkjavöku, hátíð sem margir hafa tekið opnum örmum en aðrir amast við, er rétt að nefna að tröllagrasker, þessi sem fólk sker út og setur kerti í og hefur við útidyrnar, heitir öðru nafni á íslensku glóðarker og það er skemmtileg samsetning úr seinni hluta orðins grasker með tilvísun í þetta tiltekna hlutverk þessa ávaxtar.

06.10.2015 kl.15:37
Mynd með færslu
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Morgunútvarpið