Einskorða sig við eitt kortafyrirtæki

02.02.2016 - 21:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir af þremur viðskiptabönkum landsins munu skipta með sér kortamarkaðinum á næstu misserum. Íslandsbanki mun ekki bjóða upp á nein VISA kort og Landsbankinn mun ekki bjóða upp á MasterCard. Arion banki mun áfram bjóða upp á báðar tegundir.

Íslandsbanki er nú að færa alla viðskiptavini sína með kortaþjónustu til MasterCard. Með þeirri aðgerð munu 34 þúsund VISA-korthafar fá ný kreditkort og 90 þúsund debetkorthafar fá ný kort frá MasterCard.

Formaður Neytendasamtakanna segir bankann með þessu leggja ákveðna vinnu á viðskiptavinina þar sem þeir þurfi að uppfæra kortaupplýsingar sínar í tengslum við ýmsar erlendar boðgreiðslur. Bankinn hagnist á gjörningnum en ekki sé ljóst hvernig það skili sér beint til kortanotendanna. Sjá nánar hér.

Valitor mun árlega verða af gríðarháum fjárhæðum sem tengjast ár- og færslugjöldum þessara korthafa sem nú flytjast til MasterCard vegna ákvörðunar bankans. Ekki fæst upp gefið hversu háar þær eru.

Landsbankinn ætlar framvegis einungis að gefa út VISA-kort. Breytingin hefur áhrif á um 2000 korthafa sem þurfa að skipta frá MasterCard yfir í VISA en 98% viðskiptavina Landsbankans eru með kortaþjónustu frá VISA. Landsbankinn hefur undanfarið hringt í þá viðskiptavini sem þurfa að skipta og boðið þeim VISA-kort í staðinn. Þá er þeim boðið í vildarkerfi og þeim bent á að þeir verði sjálfir að breyta upplýsingum í tengslum við boðgreiðslur og fleira. Ef viðskiptavinir vilja ekki skipta yfir í VISA þurfa þeir ekki að gera það fyrr en gildistími kortsins rennur út. Síðasta MasterCard-kreditkort sem Landsbankinn gaf út mun renna út í árslok 2017. Í svari Landsbankans við fyrirspurn fréttastofu segir að VISA bjóði uppá meiri möguleika til tækninýjunga sem stangast á við svar Íslandsbanka við sömu fyrirspurn.

Arion banki býður áfram viðskiptavinum sínum kreditkort frá bæði VISA og MasterCard. Engu að síður er unnið að einföldun vöruframboðs og verður hætt með einhverjar kreditkortategundir sem njóta lítilla vinsælda að sögn bankans. Það mun leiða til þess að 3-4000 manns munu fá endurútgefin ný VISA eða MasterCard kort á árinu en allir viðskiptavinir bankans hafa val um hvort kortafyrirtækið annast þeirra kort. 

Fréttastofa leitar enn svara við fjölda spurninga sem snúa að aðgeðum Íslandsbanka. Ekki fékkst viðtal við bankastjóra Íslandsbanka í dag. Þá skoðar bankinn hvort hann svari skriflegum spurningum fréttastofu um málið á morgun.

 

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV