Eins og að selja frá sér bestu mjólkurkúna

23.01.2016 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn Landsbankinn
Þingmaður Sjálfstæðisflokks segir að stjórnmál hafi ekkert að gera með rekstur Landsbankans og því sé ekki hægt að nýta hann sem samfélagsbanka. Samherji hans í ríkisstjórn líkir sölu Landsbankans við að selja bestu mjólkurkúna.

Sala á hlut ríkisins í Landsbankanum hefur verið nokkuð umdeild, sér í lagi hversu stóran hluta eigi að selja og hvenær það verði gert. Ekki ríkir einhugur um söluna meðal stjórnarliða. Flestir eru þó á því að selja eigi einhvern hluta. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir ekki til umræðu að ríkið eigi banka.

Skuldir og viðskipti bankans ríkistryggð

Sala Landsbankans var rædd í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Vilhjálmur segir ríkið þegar eiga samfélagsbanka, Íbúðalánasjóð, og hafi tapað tugum milljarða á honum. „Ef við eigum bankann þá eru alltaf hans skuldir og öll hans velta og viðskipti þannig lagað ríkistryggð. Við erum að sjá núna við losun fjármagnshafta þá erum við að láta kröfuhafana afhenda okkur bankann og bera ábyrgð á skuldum bankans en ef að við hefðum átt bankann í þeirri stöðu þá væri kröfuhafinn íslenska ríkið og þá hefðum við ekki haft þá stöðu,“ segir Vilhjálmur. 

Ekki selt fyrr en það er æskilegt fyrir ríkið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að það liggi ekki á að selja hlut ríkisins í bankanum fyrr en það sé æskilegt fyrir eigandann, íslenska ríkið. Bankasýsla ríkisins fari með hlut ríkisins í bankanum og Sigmundur Davíð efast ekki um að bankasýslan meti það hvenær og með hvaða hætti sé æskilegast að selja. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hefur lýst efasemdum með söluna. Hann segir að bankinn skili eiganda sínum góðum arði og að auki séu aðstæður á markaði ekki hagstæðar. 

„Eins og að pabbi muni selja frá sér bestu mjólkurkúna“

Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokks, tekur undir með Frosta. Víða í Evrópu hafi samfélagsbankar komið betur út úr hruninu en einkareknir. „Ég er bóndasonur og fyrir mér lítur að því að selja Landsbankann eins og að pabbi muni selja frá sér bestu mjólkurkúna. Við fáum gífurlegan arð af Landsbankanum sem var meira að segja undirmetinn í fjárlögum á þessu ári. Svo eins og forsætisráðherra hefur bent á að það eru augljós tækifæri þegar ríkið á 60% af fjármálamarkaðnum að breyta kerfinu og ég skynja mikið ákall úr samfélaginu að breyta bankakerfinu,“ segir Haraldur.