Einhugur sé innan ríkisstjórnarinnar

12.01.2016 - 12:21
Mynd með færslu
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.  Mynd: RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að skýrsla um áhrif innflutningsbanns Rússa á vörur frá Íslandi staðfesti að mögulegt tjón af banninu sé sex til tólf milljarðar króna á ári. Ríkisstjórnarfundi lauk í hádeginu en þar var skýrslan rædd.

Gunnar Bragi segir fullan einhug innan ríkisstjórnarinnar að halda þessum aðgerðum áfram og ekki uppi á borðinu að breyta neitt um stefnu í þeim efnum, þótt skiptar skoðanir séu meðal ráðherra á slíkum þvingunum. 

Ríkisstjórnin ákvað í ágúst síðastliðnum að skipa samráðshóp til að fara yfir innflutningsbann Rússa á vörur frá Íslandi. Endanleg skýrsla liggur nú fyrir og var til umræðu á ríkisstjórnarfundi sem stóð yfir í hádeginu. Engin ályktun eða samþykkt var gerð á fundinum um viðskiptaþvinganirnar. Gunnar Bragi sagði að loknum ríkisstjórnarfundi að lögin væru þannig að þegar þetta væri einu sinni komið á þá stæði það áfram nema tekin væri ákvörðun um að hætta og það hefði ekki verið gert. 

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hefðu þrýst á að banninu verði aflétt og nefnt hefur verið að tap vegna bannsins sé á bilinu 8 til 12 milljarðar króna. Ekki eru allir ráðherrar sammála í þessu máli. Sem kunnugt er hefur Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ítrekað sagt að ekki standi til hvika frá banninu. Rússar hafi brotið gegn alþjóðalögum og samningum sem fullveldi byggist á og ekki sé hægt að verðleggja fullveldið. Um sé að ræða prinsippmál sem ekki megi láta víkja fyrir skammtímahagmunum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra og flokksbróðir utanríkisráðherra, hefur lýst efasemdum um stuðning Íslands við viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum. Hann segir stuðninginn fyrst og fremst táknrænan. Aðrar þjóðir sem stutt hafi bannið hafi undanfarið aukið viðskipti sín við Rússa og því hljóti menn að velta því fyrir sér hvort þetta sé eðlilegt fyrirkomulag og hvort það komi til með að hafa einhver áhrif að lokum. 

 Fréttin hefur verið uppfærð.