„Einfaldur meirihluti, hann ræður“

19.02.2017 - 22:22
„Þetta kom í þriðju tilraun og allt er þegar þrennt er,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands um niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu um kjarasamnings sambandsins við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Samningurinn var samþykktur með naumum meirihluta. 52,4 prósentum atkvæða. 46,9 prósent sögðu nei.

 Valmundur segist telja að sjómenn hafi gert rétt með því að samþykkja. Hann hefur ekki áhyggjur af því hversu tæp niðurstaðan var. „Við vitum að þegar við förum í svona atkvæðagreiðslu að þá getur munað bara nokkrum atkvæðum og þannig er það bara en niðurstaðan er ljós. Einfaldur meirihluti, hann ræður. Þannig er það bara.“

Valmundur telur kynningar félaganna undanfarna tvo daga hafi gert útslagið. „Ég veit að fundirnir voru sums staðar mjög erfiðir en ég held að kynningin hafi verið góð og heppast vel og sýnt mönnum fram á það hvers virði það er að hafa þennan samning.“

Niðurstaðan þýðir að tæplega tíu vikna verkfalli sjómanna er nú lokið og fara áhafnir skipa á sjó á næstu klukkustundum. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV