Eigandinn skelfingu lostinn

29.02.2016 - 13:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Réttarhöld yfir þremur körlum, sem ákærðir eru fyrir vopnað rán í skartgripaverslun í Hafnarfirði í október, hófust í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Eigandi verslunarinnar segist hafa verið skelfingu lostinn.

Tveimur mannanna er gefið að sök að hafa farið inn í skartgripaverslunina Gullsmiðjuna  í Lækjargötu í Hafnarfirði í október. Báðir hafi verið hulið andlit sín og annar verið vopnaður exi, en hinn hamri. Þeir höfðu á brott með sér skartgripi að verðmæti tæpar tvær milljónir króna. Að ráninu loknu óku þeir að Grindavíkurafleggjaranum þar sem þeir hittu þriðja manninn.

Sá ók þeim að húsi í Keflavík og er honum gefið að sök að hafa tekið við ránsfengnum gegn greiðslu í peningum og fíkniefnum. Einum  mannanna er einnig gefið að sök tilraun til alvarlegrar líkamsárásar og til vara brot gegn valdstjórninni með því að hafa hleypt af loftbyssu þegar lögregla veitti honum eftirför í Keflavík og ætlaði að hafa tal af honum.

Minnisleysi einkenndi nokkuð framburð sakborninganna í morgun, ekki síst hjá þeim sem gefið er að sök að hafa verið vopnaður exi. Þá bar frásögn mannanna ekki saman að öllu leyti, en þeirsögðust  allir hafa verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma. Sá sem beitti hamri í ráninu segist síðan hafa farið í meðferð og sé allsgáður í dag. Hann hafi einnig reynt að ná sambandi við eiganda verslunarinnar til að biðjast afsökunar.

Fram kom hjá konunni sem á  skartgripaverslunina að hún hafi verið við vinnu þegar mennirnir komu inn í verslunina og sá með öxina skipaði henni að leggjast á gólfið. Hún sagðist hafa verið skelfingu lostin. Á meðan maðurinn skipaði henni að leggjast sagði hún að strekst hafi á grímunni og hún því séð í andlit hans og þekkt hann, en maðurinn er einmitt ákærður fyrir að brotist inn í þessa sömu verslun í september síðastliðnum og haft þá skartgripi að verðmæti 1,1 milljón upp úr krafsinu. Þegar konan var spurð út í hvort annar ræningjanna hafi viljað biðjast afsökunar, staðfesti hún það, en sagðist ekki hafa verið tilbúin til þess þá.Að ráninu loknu óku tvímenningarnir hratt af vettvangi og óku meðal annars á annan bíl og er einnig ákært fyrir það.

Lögreglumenn gáfu skýrslu í morgun og heldur skýrslutaka áfram í dag.

  

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV