Eiður Smári í Molde: „Ég er alla vega mættur“

12.02.2016 - 07:01
Mynd með færslu
 Mynd: rbnett  -  Odd Roar Lange
Eiður Smári Guðjohnsen skrifar að öllum líkindum undir samning við norska knattspyrnuliðið Molde í dag. Eiður kom til Molde í gærkvöld þar sem blaðamaður Romsdals Budstikke náði tali af honum á flugvellinum.

„Það er fínt að vera kominn hingað. Það er ekkert klárt ennþá en ég er alla vega mættur. Við sjáum svo hvað gerist í framhaldinu.“ sagði Eiður við RBnett (Romsdals Budstikke) en Molde hefur boðað til fjölmiðlafundar í dag.

Framundan hjá Eiði var læknisskoðun eftir komuna til Molde. „Ég held ég byrji á að gera eitthvað í kvöld og svo höldum við áfram á morgun (í dag). Ég veit ekki hvað en ég hitti læknateymið og fer í einhver próf. Vonandi verð ég tilbúinn fyrir æfingu á morgun (í dag).“ sagði Eiður

Ekki með Molde í Evrópudeildinni

Molde mætir Sevilla í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar n.k. fimmtudag en verður ekki hlutgengur með norska liðinu í leikjunum tveimur þar sem Molde hefur þegar tilkynnt leikmannalista sinn til UEFA.

Blaðamaður spurði Eið næst hvað hann vissi um Molde. „Það er eitthvað. Það hafa verið nokkrir Íslendingar hérna áður. Félagið hefur notið velgengni undanfarin ár.“ sagði Eiður og bætti því við aðspurður að metnaður sinn hjá Molde væri að spila eins vel og hann getur og að hjálpa liðinu með því sem hann hefur fram að færa. „Vonandi getum við gert atlögu að meistaratitlinum.“ bætti Eiður við.

Eiður hefur verið án félags síðan í síðasta mánuði þegar samningur hans rann út hjá kínverska liðinu Shijiazhuang Ever Bright. Molde verður fyrsta knattspyrnuliðið á Norðurlöndunum, utan Íslands, sem Eiður semur við.

Molde varð í 6. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili en vann meistaratitilinn árið áður, 2014. Þjálfari Molde er Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi leikmaður Manchester United.

 

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður