Egilsstaðir: Sumarbústaður fauk úr stað

16.02.2016 - 01:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Arnaldur Máni Finnsson
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ofsaveðrið á Austurlandi náði hámarki um miðnættið. Á Egilsstöðum varð ægilegur hvellur um það leyti, Hálfkláraður sumarbústaður, sem var í smíðum á planinu utan við trésmiðju í bænum, lagði af stað norður í land í látunum og var kominn út á miðja götu þegar tókst að skorða hann af. Jens Hilmarsson, lögreglumaður á Egilsstöðum var á ferðinni í bænum að skoða ummerki.

Hann segir minniháttar foktjón hafa orðið á einu íbúðarhúsi og Menntaskólanum, þar hafi rúður brotnað. Tvö stór tré brotnuðu líka og féllu, án þess þó að valda nokkru tjóni, og að öðru leyti virðist tjón furðu lítið, segir Jens. 10 til 15 björgunarsveitarliðar voru að störfum á Egilsstöðum þegar mest var, ásamt nokkrum bæjarstarfsmönnum og fleirum, við að festa lausamuni og annað sem fokið getur. 

Vindur hefur verið að suðaustan og mældist mestur, stöðugur vindhraði um 50 m/s á Gagnheiði um kl. 22.30. Þá mældust tæpir 40 metrar á sekúndu í Vatnsskarði eystra um 23.30 og  á Skjaldþingsstöðum og Vatnsfelli náði vindhraði 38 m/s. Nú fer vindur að snúast í suðvestanátt, og skánar þá veður heldur á Austurlandi en versnar að sama skapi norðan- og vestanlands. 

Ekkert ferðaveður er á þessum slóðum og varað við stormi og mikilli úrkomu næsta sólarhringinn Víða um land er hreint ekkert ferðaveður og verður ekki í nótt. 

Uppfært: Fréttastofa náði tali af Jens Hilmarssyni lögreglumanni um hálftvö, og var þá mesti veðrahamurinn að baki.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV