Egill óskar eftir „nýjum karakterum“

11.08.2017 - 14:33
Mynd með færslu
 Mynd: ES  -  Vimeo
Listamaðurinn Egill Sæbjörnsson kemur til með að leiða sérstakan keppnisflokk stuttmynda á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF. Egill vill enn fá fleiri myndir á hátíðina, þar sem kvikmyndagerðarfólk er hvatt til að skapa karakter, eða finna jafnvel sitt eigið innra sjálf.

Myndirnar sem um ræðir eiga hvorki að vera lengri né styttri en ein mínúta.

Flokkurinn er samstarfsverkefni RIFF og The One Minutes, sem er alþjóðlegt samstarfsverkefni listamanna með aðsetur í Amsterdam. Myndirnar verða frumsýndar á sama tíma á RIFF og í Bonnefanten-safninu í Maastricht í Hollandi. Samkeppnin er öllum opin og er skilafrestur á framlögum til 15. ágúst næstkomandi.

Egill hefur vakið athygli fyrir list sína og fjalla verk hans gjarnan um tengsl þess sem er raunverulegt og þess sem er ímyndað, um mörkin milli töfra og hins hversdagslega. Egill, sem er fæddur árið 1973 og er búsettur í Berlín var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum í ár.

RIFF, Reykjavík International Film Festival, verður haldin dagana 28. september til 8. október næstkomandi en hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2004.

Hægt er að skila framlögum í keppnina með því að fylgja þessum hlekk. 

Mynd með færslu
Nína Richter
vefritstjórn