Egill fékk ekki að segja ókei

28.04.2014 - 21:02
Mynd með færslu
Nú geta Danir, Norðmenn og Svíar lesið Íslendingasögurnar á nútímamáli. Margra ára verki fimmtíu þýðenda og fleiri lauk í dag með útgáfu verkanna. Einn ritstjórinn telur verkið umfangsmestu þýðingu síðari tíma.

Þýðingunum var fylgt úr hlaði við hátíðlega og líflega athöfn í Silfurbergi Hörpu í dag að viðstöddum meðal annars menningarmálaráðherrum Norðurlandanna sem fengu fyrstu eintökin. 

Útgefandinn fékk hugmyndina fyrir aldarfjórðungi og hefur nú helgað sig verkinu árum saman og notið velvildar styrkjenda í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Íslandi.

Jóhann Sigurðarson, útgefandi hjá Sögu, segir svolítið um það að menn hafi það á orði að maður hljóti að vera brjálaður til að standa í svona útgáfu. 

„En ég tel að maður hafi nú afsannað það núna, þetta hefur gengið upp á endanum," segir hann. 

Við athöfnina í dag tilkynnti forsætisráðherra að ríkisstjórnin hefði ákveðið að gera þýðingarnar aðgengilegar á veraldarvefnum í áföngum á næstu árum.

Jon Gunnar Jørgensen, ritstjóri norsku þýðingarinnar, sagði í ræðu sinni að þýðingin væri stærsta sameiginlega þýðing sem nokkurn tíma hefði verið gerð á Norðurlandamálum:

„Mér dettur ekkert stærra í hug og ef þú leggur þessi þrjú verkefni saman; norsku, sænsku og dönsku, þá eru 50 þýðendur sem hafa unnið að þessu. Þetta eru 2500 blaðsíður á hverju máli. Svo þetta er á heimsmælikvarða alla vegana."

En er erfiðara að þýða eitthvað eitt tungumál en annað? 

Annette Lassen, ritstjóri dönsku þýðingarinnar og Kristinn Jóhannesson, ritstjóri þeirrar sænsku, segja vandamálin að mörgu leyti eins og úrlausnirnar: mismunandi. Það sé þó ekki auðveldara að þýða yfir á eitt ákveðið tungumál heldur en annað.

Kristinn segir viss mörk hafa verið sett með að setja sögurnar yfir á nútímamál. Þau mörk sé þó voðalega erfitt að útskýra.

„Maður má ekki nota of gamaldags orð, maður má heldur ekki nota alltof nýleg orð. Og við vorum að leika okkur að þessu: Er það ókei að Egill Skallagrímsson segi ókei. Það er ekki ókei." segir Kristinn. „Menn verða að reyna að miða við það að gera þennan texta á fallegu máli en það einföldu að æskulýðurinn taki á móti því."