Eggjahneykslið og ríkið fyrir EFTA dómstól

13.08.2017 - 12:18
epa06123050 Eggs being destroyed at a poultry farm in Onstwedde, the Netherlands, 03 August 2017. The eggs are being destroyed on the order of the Dutch Food and Welfare Authority (NVWA) after it was discovered they contain toxic levels of the pesticide
Eggjum eytt á búgarði í Hollandi, samkvæmt fyrirskipun heilbrigðisyfirvalda.  Mynd: EPA  -  ANP
Dómsmál gegn íslenska ríkinu vegna innflutningsbanns á ferskum eggjum frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins er nú fyrir EFTA-dómstólnum á sama tíma og eggjahneyksli skekur nú markaðinn í mörgum ríkjum EES.

Stjórnendur hollenska fyrirtækisins Chickfriend voru handteknir á fimmtudaginn grunaðir um að hafa stefnt almenningi í Belgíu og Hollandi í hættu með því að selja og dreifa ólöglegu skordýraeitri á minnst 180 hæsnabú í löndunum. Milljónir eggja frá búunum fóru á markað í þessum löndum og þá hafa menguð egg fundist í fleiri löndum eins og Frakklandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Bretlandi, Lúxemborg, Sviss og Danmörku. 

Aðeins er leyft að flytja unnar eggjaafurðir til landsins eins og gerilsneyddar eggarauður og -hvítur. Matvælastofnun er að láta athuga hvort innfluttar eggjaafurðir innihalda óleyfilega skordýraeitrið. Það er sníklalyfið Fipronil. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun eru engin egg í innfluttum eggjaafurðum frá eggjaframleiðendum, sem notað hafa Fipronil. Þá þarf fólk að borða mjög mikið af menguðum eggjum eða eggjaafurðum svo að hætta sé á eitrun. Þó er til varúðar ráðlagt að börn neyti ekki þessarra menguðu eggja. 

Fyrir einum mánuði áttu íslensk stjórnvöld að vera búin að skila skýrslu til EFTA-dómstólsins vegna máls sem Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, höfðaði gegn íslenska ríkinu vegna innflutnginstakmarkana á ferskum kjötvörum og vörum úr eggjum og mjólk frá öðrum EES-ríkjum. Málið fór til EFTA-dómstólsins 1. febrúar á þessu ári. Málið er höfðað vegna þess að ESA telur það brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og að innflutningstakmarkanirnar leiði af sér ónauðsynlegar og ástæðulausar viðskiptahindranir. 

Íslenska ríkið stendur þegar í málflutningi af sama meiði fyrir Hæstarétti. Fyrirtækið Ferskar kjötvörur vann í nóvember í fyrra mál fyrir héraðsdómi, sem það höfðaði vegna innflutnings af ferskum nautalundum frá Hollandi. Héraðsdómur beindi spurningum til EFTA dómstólsins vegna málsins. EFTA dómstóllinn dæmdi í febrúar á þessu ári að EES ríki gætu ekki sett sérstakar íþyngjandi reglur um innflutning á ferskmeti. Í héraðsdómi var ríkið dæmt til að greiða Ferskum kjötvörum skaðabætur vegna innflutningshindrana. Og nú er ríkið búið að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Ætla má að munnlegur málflutningur fara fram í réttinum í loks árs eða byrjun þess næsta.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA