„Ég vil að allir viti að ég á ekki snjallsíma“

Menningarefni
 · 
Tækni og vísindi

„Ég vil að allir viti að ég á ekki snjallsíma“

Menningarefni
 · 
Tækni og vísindi
Mynd með færslu
12.07.2017 - 13:01.Nína Richter
Margir íslendingar nota snjallsíma mörgum sinnum á dag, og er það gert í ýmsum tilgangi. Snjallsímar leysa af hólmi m.a. myndavélar, pósthólf, minnisbækur, leikjatölvur, vekjaraklukkur, sjónvörp og dagblöð, auk þess að vera í grunninn samskiptatæki sem hægt er að máta við allskonar miðla. Gunnar Jónsson tónlistarmaður hafnar notkun snjallsímans og áreitinu sem honum fylgir.

„Ég hef aldrei átt snjallsíma en ég get ímyndað mér að það sé alveg smá áskorun að taka skrefið til baka þegar maður er kominn á þennan stað,“ segir Gunnar. „En ég veit ekki af hverju ég er að missa, þannig að það er kannski bara fínt.“

Er óskiljanlegur fyrir sumu fólki

Gunnar sá sig knúinn til að birta stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann útskýrir fyrir vinum og vandamönnum að hann eigi ekki snjallsíma, og biðlar þannig til fólks að sýna því skilning að hann geti ekki séð skilaboð úr öðrum snjalltækjum, og að auki sé hann ekki alltaf við símann. Í færslunni segir: „M.ö.o. þá megið þið ekki vera fúl út í mig eða finna fyrir höfnun yfir að ná ekki alltaf í mig þó að árið sé 2017 og allir eigi snjallsíma/séu opin (fés)bók“.

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Jónsson  -  Facebook

„Ég fór að átta mig á því að núna erum við komin á þennan stað þar sem það eiga eiginlega allir snjallsíma, og því fylgir ákveðin hegðun og þá er ég orðinn pínu óskiljanlegur fyrir sumu fólki.“ Gunnar bætir því við að stundum geti fólk tekið því illa þegar snjallskilaboð liggi óhreyfð í lengri tíma, og fólk túlki slíkt sem svo að hann sé viljandi að hundsa viðkomandi. „En það er bara að ég er að lifa mínu snjallsimalausa lífi úti í sveit, geðveikt sáttur. Það er mjög yndislegt.“

Snjallsíminn truflar flæðið

Þá þekkjast dæmi þess að vinnustaðir krefji fólk um að svara tölvupóstum og vera til viðtals utan vinnutíma, með tilkomu snjalltækja sem taka má með sér hvert sem er. Aðspurður segir hann að snjallsímalaus lífstíll valdi honum ekki óþægindum í því sambandi. „Ég er sem betur fer mjög heppinn með vinnu, þannig að ég hef ekki orðið fyrir neinum þrýstingi þar. En [...] það er smá svona, það er nánast verið að ýta okkur út í einhvern athyglisbrest, sem er sá að alveg sama hver við erum eða hvað við erum að gera, þá á alltaf að vera hægt að ná í okkur.“

Mynd með færslu
 Mynd: pexels

Hann bætir því við að hann skilji að síminn sé öryggistól, og að mikilvægt sé að geta náð í fólk, „og ég er ekkert saklaus, ef ég næ ekki í kærustuna mína í tvo tíma þá stressast ég upp eins og sannur kærasti gerir. En þetta, og sérstaklega vegna þess að ég er að reyna að gera tónlist og svona, því fylgir ákveðið svona flæðis-ástand, sem þarf að komast í. Maður getur ekki alveg komist í sumt ástand bara fimm mínútur í senn. Það er nauðsynlegt ef einn daginn ég ætla að skrifa metsölubók eða eitthvað, þá þarf ég að geta slökkt á símanum mínum. Stundum velti ég því fyrir mér: „erum við núna bara orðið fólk sem getur ekki skrifað góðar bækur?“  Gunnar semur tónlist undir heitinu Gunnar Jónsson Collider, þar sem hann spilar tilraunakennt rafpopp í bland við sveimtónlist.

Líður eins og í Zombie-mynd

Hann tekur skýrt fram að þrátt fyrir afstöðu sína til snjallsímanotkunar sé hann ekki að dæma neinn. „Ég setti statusinn ekki inn til þess að dæma fólk sem á snjallsíma. Ég vil að það komi skýrt fram að ég virði lífsstíl allra, en á sama tíma verð ég að viðurkenna að stundum líður mér eins og ég sé í Zombie mynd og það sé búið að ræna heilanum úr öllum í kringum mig. Og ég lít í kringum mig og það eru einhvernveginn allir á netinu, og ég efast ekki um að fólk sé að gera skemmtilega hluti, og kannski er bara skemmtilegra fólk en ég einhversstaðar á netinu að pósta gif-myndum. Það væri nú alveg hryllilegt ef það væri bara að skoða einvherjar bull-greinar þegar ég er geðveikt spenntur að segja þeim sögu.“

Gunnar segir frelsið frá snjallsímanum auðga lífið. „En af því að ég hef aldrei átt snjallsíma þá leyfi ég mér að njóta þess að gera hluti þar sem venjulegt fólk tekur bara upp símann. Ég fer í strætó og ég horfi í kringum mig, og ég hlera hvað fólk er að segja, og reyni að hafa gaman.“ 

Snjallsíminn leysir ótal tæki af hólmi
 Mynd: Karol Dach  -  Pexels
Snjallsíminn leysir ótal tæki af hólmi

Í netheimum og kjötheimum samtímis

Hann segir að mikilvægt sé að staldra við. „Á sama tíma fyrst að við erum að tala um þetta þá er allt í lagi að setja spurningarmerki þetta, að samfélagið sé að færast í þessa átt, við föttum ekki alveg hvað er að gerast, með þessa snjallsíma, held ég.“ „Ég hef alveg heyrt setningar eins og „ég ætlaði ekkert að vera þessi manneskja, ég ætlaði ekki að vera alltaf að skoða símann minn, en þetta bara er svo auðvelt og síðan kemur dauð stund og maður veit að maður á von á einhverju.“ Og [fólk] er jafnvel að eiga í samskiptum [við aðra] bæði í netheimum og kjötheimum á sama tíma, og reyna að juggle-a þetta allt. Ég er ekkert viss um að við mannveran séum hönnuð fyrir þetta.“ Hann segir sterkustu rökin fyrir snjallsímanotkun vera myndavélarnar sem innbyggðar eru í símana. „Ég held að ef maður gæti tamið sér smá aga með snjallsímann sinn og tekið bara góðar myndir og reynt síðan að temja sér að leggja hann frá sér og vera til staðar, þá væri það ekkert vandmál. En ég held að það krefjist líka smá umræðu og aga.“

Gunnar Jónsson var í símaviðtali við Morgunútvarp Rásar 2, miðvikudaginn 13. júlí 2017.

Tengdar fréttir

Innlent

Börn þurfa sjúkraþjálfun vegna snjallsímanna

Tækni og vísindi

Hófleg snjallsímanotkun gleður mannsins hjarta

Tækni og vísindi

Níu af hverjum tíu Íslendingum eiga snjallsíma

Tækni og vísindi

Snjallsímafíkn orðin algengari