„Ég veit ekkert af hverju ég er ákærður“

20.03.2017 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja  -  RÚV
Kjartan Ólafsson, saksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, krafðist þess að útvarpsmanninum Pétri Gunnlaugssyni yrði gert að greiða 200 þúsund krónur í sekt fyrir hatursorðræðu og útbreiðslu haturs í útvarpsþættinum „Línan er laus“ á Útvarpi Sögu við aðalmeðferð í málinu. Pétur sagðist sjálfur ekki vita af hverju hann sjálfur væri ákærður og Jón Steinar Gunnlaugsson, verjandi hans, sagði ákæruna árás á tjáningarfrelsið, málsóknin væri fjarstæðukennd og dæmi um einhvers konar ofstæki.

Pétur var ákærður fyrir ummæli sem hann lét sjálfur falla en líka fyrir að útvarpa ummælum þeirra sem hringdu inn í þáttinn. Héraðsdómur vísaði málinu fyrst frá en Hæstiréttur gerði dómnum að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Og í morgun var komið að aðalmeðferð í málinu sem hófst á skýrslutöku yfir Pétri.

Útvarpsmaðurinn sagði að enginn hlustandi fengi að hringja úr óskráðum símum, þeir væru látnir segja til nafns og því væru þeir alltaf að segja skoðun sína undir nafni. Hann sagði frumkvæðið að umfjöllunarefni hvers dags yfirleitt koma frá hlustendum sjálfum og í útvarpsþættinum væri oft fjallað um viðkvæm mál sem vektu upp sterkar tilfinningar. „Sá sem hringir inn ber ábyrgð á því sem hann segir. Ég stjórna ekki hvað það er.“

Í skýrslutökunni gerði saksóknari að umtalsefni „já“ og „hmm“ sem Pétur heyrist segja í þeim samtölum sem ákært var fyrir. Og spurði hvort dagskrárgerðarmaðurinn hefði ekki einfaldlega verið að taka undir málflutning hlustenda.  „Já-ið þýðir ekki endilega að ég sé sammála heldur get ég bara verið að athuga hvort viðkomandi sé ennþá á línunni.“ Hann rifjaði jafnframt upp setu sína í stjórnlagaráði og kvaðst ekki hafa verið sammála öllu því sem þar hefði komið fram en: „Ég var þó einn þeirra sem vildi verja réttindi samkynhneigðra.“

Að lokinni stuttri skýrslutöku fluttu bæði Kjartan og Jón Steinar mál sitt. Kjartan sagði að ummælin hefðu verið niðrandi orðræða, byggð á hræðsluáróðri og meiðandi staðalímyndum. Engin tilraun hefði verið gerð til að biðja fólk um að draga úr ummælum sínum heldur hefði frekar verið ýtt undir rangar fullyrðingar og dylgjur. „Pétri hefði mátt vera ljóst að hann væri að útvarpa háði og smánun í garð hinsegin fólks.“ Það væri dómsins að meta hvort vægi þyngra - tjáningafrelsi Péturs eða hinna sem yrðu fyrir ummælunum. 

Kjartan sagði ummælin ekki vera léttvæg heldur væru þau þvert á móti árás á stöðu minnihlutahóps sem farið hefði fram á aðgengilegum miðli. Hvergi hefði verið vikið nokkuð að starfi samtakanna, umræðan hefði verið niðurlægjandi, staðalímyndir normalíseraðar og fólk fengið að grafa undan réttindum hinsegin fólks.

Jón Steinar Gunnlaugsson, verjandi Péturs, sparaði ekki stóru orðin í málflutningi sínum. Hann sagði að til umræðu hefði verið frétt um að til stæði að hefja kennslu um samkynhneigð í Hafnarfirði og umræðan hefði snúist um hvort þetta væri eðlileg kennsla.  

Hann sagði að það þyrfti sérstök gleraugu til að sjá að þeir sem ræddu málið hefðu verið eitthvað andvígir samkynhneigð þótt þeir hefðu þá skoðun sína að þeir vildu ekki þessa kennslu.  „Og má mönnum ekki finnast það?“ Spurði Jón Steinar nokkuð hvass.

Hann sagði ákæruna árás á tjáningarfrelsið, dæmi um einhvers konar ofstæki og fjarstæðukenndan hugarburð.  Skjólstæðingur sinn hefði ekkert á móti samkynhneigðum heldur hefði þá trú að hver og einn mætti gera það sem hann vildi í kynífi svo lengi sem það skaðaði ekki neinn. Hann spurði jafnframt hvort það væri búið að taka einhver málefni út fyrir sviga, „og ef þú hefur einhverjar skoðanir á því þá verðurðu bara að fara ofan í kjallara og ræða það við konuna þína.“

Að loknum máflutningi spurði Guðjón St. Marteinsson, dómari, hvort Pétur hefði einhverju við þetta að bæta. „Ég veit ekkert af hverju er ég er ákærður,“ svaraði Pétur. „Og það er mjög óþægilegt að vita það ekki og ég hef því átt erfitt með að taka afstöðu sakarefnisins.“