„Ég held að það þurfi að taka þarna til“

15.02.2016 - 09:07
Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar, segir fylgi flokksins hörmulega lágt. Samfylkingin hafi ekki tiltrú og höfði ekki til ungs fólks.

Margrét segir slæmt að sjá hvernig komið er fyrir flokknum. Hún var gestur Morgunvaktarinnar á Rás1 í morgun. „Ég held að það þurfi að taka þarna til. Fylgið er reyndar orðið alveg hörmulega lágt og við höfðum ekki til ungs fólk, höfum ekki tiltrú og það þarf bara að breytast en þá þarf þingflokkurinn líka að koma saman sem ein heild og við þurfum að sjá það að þarna standi menn saman um þær lausnir sem verða fundnar á landsfundi eða síðar eftir þá umræðu sem á eftir að fara fram innan flokksins og að þingflokkurinn standi saman og menn komi með bjartsýni en ekki þreytutón. Ef flokkurinn hefur ekki trú á sér sjálfur og þeir sem fyrir hann vinna og þeim verkum sem hann stendur fyrir og ætlar í, þá er mjög erfitt að vinna tiltrú fólks.“

Örlög vinstrimanna að geta ekki unnið saman

Margrét segir að umræðan um kosningabandalag vinstrimanna sem nú er hafin sé kunnugleg en það virðist vera örlög vinstrimanna að geta ekki unnið saman. Hún segir bréf Árna Páls Árnasonar, formanns flokksins, gott en það hefði mátt koma miklu fyrr. Árni Páll hafi upplifað mikla óánægju meðal flokksins sem dregið hafi úr samstöðu meðal flokksmanna. Icesave-málið hafi verið flokknum dýrt, sömuleiðis þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB og staða heimilanna í landinu.