Efnahagslegt neyðarástand í Venesúela

16.01.2016 - 17:48
epa05104107 Venezuelan President Nicolas Maduro speaks at the National Assembly in Caracas, Venezuela, 15 January 2016. Maduro presented his 'Report and Accounts' or annual budget to Parliament.  EPA/MIGUEL GUTIERREZ
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, ávarpar þing landsins í gær.  Mynd: EPA  -  EFE
Ríkisstjórn Venesúela hefur lýst yfir efnahagslegu neyðarástandi í landinu vegna samdráttar og óðaverðbólgu. Stjórnin hefur gefið út tilskipun sem veitir Nicolas Maduro forseta völd til að grípa til sértækra ráðstafana.

Tilskipunin var gefin út í gær eftir að ríkisstjórnin birti, í fyrsta skipti í meira en ár, tölur um efnahagsástandið í landinu. Að sögn seðlabanka Venesúela var samdrátturinn 4,5 prósent fyrstu níu mánuði nýliðins árs og verðbólgan ríflega 141 prósent. Samkvæmt tilskipun ríkisstjórnarinnar fær Maduro forseti tvo mánuði til að gera viðeigandi ráðstafanir til að reyna að rétta við efnahag landsins án afskipta þingsins.

Andstæðingar forsetans á þingi segjast hins vegar hafa vald til að samþykkja eða hafna tilskipuninni. Maduro og fylgismenn misstu meirihluta á þingi í kosningum í desember, meðal annars vegna versnandi efnahagsástands. Andstæðingar Maduros segja að stefna hans og ríkisstjórnarinnar hafi beðið skipbrot og að taka verði upp nýja stjórnarhætti í landinu.

Lækkandi olíuverð hefur bitnað harkalega á Venesúela. 96 prósent útflutningstekna koma af olíusölu. Skortur er á brýnum nauðsynjum í landinu, þar á meðal á mjólk og lyfjum.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV