Efasemdarmaður á að rannsaka bólusetningar

11.01.2017 - 07:07
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Donald Trump heldur áfram að sækja til liðs við sig ráðgjafa sem efast um viðtekin sannindi og ráðandi kenningar færustu vísindamanna. Robert F. Kennedy, einn háværasti efasemdarmaður vestanhafs um gagnsemi og skaðleysi bólusetninga, hefur verið fenginn til að leiða rannsókn á vegum Trumpstjórnarinnar á öryggi bólusetninga. Kennedy greindi frá þessu í gær. Sean Spicer, verðandi upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, staðfesti að þeir Trump og Kennedy hefðu fundað um bóluefni og bólusetningar.

Kennedy hefur lengi haldið því fram, þvert á bestu, vísindalegu þekkingu, að bólusetningar geti valdið einhverfu. Sú kenning hefur aldrei verið sönnuð með vísindalegum hætti, þvert á móti liggja fjölmargar áreiðanlegar rannsóknir fyrir sem afsanna hana. 2015 gekk Kennedy svo langt að jafna bólusetningu barna við helförina, en dró síðar í land og baðst afsökunar á þeirri samlíkingu.

Trump hefur sjálfur látið uppi efasemdir um öryggi bólusetninga, líkt og hann hefur ítrekað gert um þátt mannsins í hnattrænni hlýnun. Einn helsti ráðgjafi Trumps í umhverfismálum,  Myron Ebell, þvertekur fyrir áhrif mannsins á loftslagsbreytingar og verðandi yfirmaður Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna, Scott Pruitt, hefur árum saman verið einn harðasti gagnrýnandi stofnunarinnar og hagsmunagæslumaður fyrir olíu- og gasiðnaðinn í landinu. 

Robert F. Kennedy Jr. er elsti sonur Roberts Kennedys, öldungadeildarþingmanns og forsetaefnis Demókrata, sem myrtur var 1968. Rétt er að taka fram að þótt Spicer hafi staðfest að þeir Trump hafi rætt bóluefni og bólusetningar hefur enginn úr herbúðum Trumps staðfest að Kennedy hafi verið fenginn til að stjórna rannsókn á öryggi bólusetninga.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV