Dýrara að reikna ekki með rafbílum strax

20.03.2017 - 20:41
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Ennþá eru ný hús og hverfi hönnuð og reist hér á landi án þess að gert sé ráð fyrir hleðslum fyrir rafbíla. Mun dýrara er að koma þeim upp eftir að hverfin hafa verið reist. Breyta þarf byggingareglugerð vegna þessa segir Böðvar Tómasson verkfræðingur hjá Verkfræistofunni EFLU.

Mjög mismunandi aðstæður eru fyrir rafbíla í eldri hverfum og eldri byggingum borgarinnar. Ef tíu fjölskyldur fá sér rafbíl í blokk og allir koma heim á sama tíma og stinga í samband þá er nokkuð ljóst að rafkerfið þolir það ekki. Rafmagnsinntak í húsum í eldri hverfum er frekar lítið og þá þarf jafnvel að setja nýtt. Kostnaðurinn við það getur hlaupið á milljónum. 

Böðvar Tómason, verkfræðingur á Verkfræðistofunni EFLU segir að líka séu vandamál í nýjum hverfum. „Ný hverfi og ný hús eru als ekki öll hönnuð og byggð með þetta í huga að geta annað framtíðar rafbílahleðslu.“

Mun dýrara er að koma rafbílahleðslum fyrir í húsum eftir að hverfin hafa verið reist.

„Þetta ætti í raun og veru að vera sjálfssagt mál í dag að hanna hverfi og íbúðir og fjölbýlishús þannig að það væri hægt að anna þessari þörf sem er nú þegar til staðar þannig að það í raun og veru þarf að ráðast í breytingar á byggingareglugerð og leiðbeiningum og öðru slíku til að tryggja að þetta sé gert.“

Þetta á þó ekki við Kirkjusandsreit því það hverfi hefur verið hannað með rafbílahleðslur í huga. Gert er ráð fyrir þeim í bílageymslum og á lóðum líka.

Víða í Skandinavíu hafa yfirvöld styrkt fólk sem býr í eldri hverfum til að koma upp  rafhleðslum. „Einnig hefur þeim verið komið fyrir á almenningsbílastæðum eins og Reykjavíkurborg ætlar að gera í bílageymsluhúsum en það þarf að gera það kannski í auknum mæli t.d. við götur í eldri hverfum þar sem þyrfti að koma upp hleðslustaurum eins og við sjáum mjög víða í Oslo og í  Noregi og í Skandinavíu allri.“
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV