Duterte fær heimboð í Hvíta húsið

30.04.2017 - 06:55
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, bauð starfsbróður sínum í Filippseyjum, Rodrigo Duterte, í heimsókn í Hvíta húsið í vinsamlegu símtali þeirra í nótt. Saman ræddu þeir um ógnina sem stafar af Norður-Kóreu, en Duterte segir leiðtoga þeirra vilja gera út af við heiminn.

Mikil spenna ríkir á Kóreuskaga vegna sívaxandi ógnar af hálfu Norður-Kóreu. Ríkið gerir hverja flugskeytatilraunina á fætur annarri og vinnur enn að þróun kjarnorkuvopna þrátt fyrir viðskiptaþvinganir vegna tilraunanna. Stjórnvöld í Pyongyang hafa haft í hótunum við Bandaríkin og stefna að því að geta búið til flugskeyti sem drífur alla leið til Bandaríkjanna.

Duterte er stjórnandi í samtökum ríkja í Suðaustur-Asíu, ASEAN. Samtökin halda nú þing í Manila, höfuðborg Filippseyja, og hélt Duterte blaðamannafund í gær. Þar sagði hann að fyrir sér liti ástandið þannig út að þarna væru tvö ríki að leika sér með dótið sitt, og þetta dót sé hreinlega ekkert skemmtilegt. Hann sagðist ekki vilja ímynda sér hvað væri í gangi í huga Kim Jong-Uns, leiðtoga Norður-Kóreu. Hann vilji ekki vita hvað hann er að hugsa, en honum þykir ljóst að hann stefnir heiminum í hættu. Duterte sagði á blaðamannafundinum að hann myndi ráðleggja Trump að leyfa Kim að leika sér, en vara sig á að dragast inn í leikinn. Hann segir Kim einfaldlega vilja heimsendi, þess vegna sé hann alltaf brosandi. 

Í nótt töluðu svo Trump og Duterte saman í síma. Spjallið var á vinsamlegu nótunum að sögn yfirlýsingar frá Hvíta húsinu, og ræddu þeir meðal annars ógnina frá Norður-Kóreu. Þá segir í yfirlýsingunni að þeir hafi einnig rætt saman um þá staðreynd að filippeysk stjórnvöld væru að gera sitt besta til að losa ríkið við eiturlyf, plágu sem mörg ríki glími við. Amnesty International og fleiri mannréttindasamtök segja aðgerðir Dutertes jaðra við glæpi gegn mannkyninu.

Samband Bandaríkjanna og Filippseyja versnaði til muna fljótlega eftir að Duterte tók til valda. Hann kallaði Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, meðal annars hóruson þegar hann gagnrýndi Duterte fyrir stríð hans gegn eiturlyfjum. Nýlega sagði hann svo þingmenn Evrópusambandsins klikkaða fyrir að fordæma morðin á þeim sem taldir eru tengjast eiturlyfjaglæpum. Í yfirlýsingu Hvíta hússins í nótt er sérstaklega greint frá því að samskipti ríkjanna séu nú að færast í rétta átt.