Duterte bannar reykingar á Filippseyjum

19.05.2017 - 08:35
epa05309500 Presumptive president-elect of the Philippines Rodrigo Duterte speaks during a press conference before he meets well-wishers in Davao City, southern Philippines, 16 May 2016. On 15 May 2016, Duterte said that he will urge Congress to restore
 Mynd: EPA
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur undirritað tilskipun sem bannar reykingar í almannarými í landinu öllu að viðlagðri fjögurra mánaða fangelsisrefsingu og sekt að jafnvirði rúmlega 10 þúsund króna. Reykingar verða bannaðar bæði innan- sem utandyra. Þetta leggst við bann sem nú þegar er í gildi í landinu við auglýsingum og kynningum á tóbaki.

Duterte reykti sjálfur mikið en hætti þegar hann var greindur með stíflandi æðabólgur sem voru raktar til reykinganna. Árið 2012 bannaði hann reykingar í heimaborg sinni Davao, þar sem hann var ýmist borgarstjóri eða varaborgarstjóri nær óslitið frá 1988 þar til í fyrra.

Sérmerktum reykingasvæðum fyrir fullorðna verður komið upp sem ekki verða stærri en 10 fermetrar og þurfa að vera minnst 10 metra frá inngöngum að byggingum. Þá verða skipaðar sérstakar tóbaksvarnarsveitir undir forystu lögreglu. Bannið nær einnig til rafretta.

Sautján milljónir Filippseyinga reykja, sem eru um þriðjungur fullorðinna. Áætlað er að reykingar kosti ríkissjóð landsins jafnvirði rúmlega 400 milljarða króna á ári í heilbrigðisþjónustu og minnkaðri framleiðni.

Duterte háði kosningabaráttu sína til embættis forseta landsins undir þeim formerkjum að hann ætlaði að taka duglega á glæpamönnum og spillingu, fíkniefnasölum og -neytendum og uppræta sem flesta lesti í samfélaginu hvern á fætur öðrum, meðal annars reykingar og ólöglegt fjárhættuspil.