Duterte afþakkar styrki ESB vegna gagnrýni

18.05.2017 - 04:04
epa05965609 Philippines President Rodrigo Duterte poses for a group photo during the Belt and Road Forum at the International Conference Center in Yanqi Lake, north of Beijing, China, 15 May 2017. The Belt and Road Forum runs from 14 to 15 May, and it is
 Mynd: EPA  -  REUTERS POOL
Stjórnvöld á Filippseyjum hyggjast ekki þiggja neina styrki frá Evrópusambandinu héðan í frá. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sendiskrifstofu ESB í höfuðborg Filippseyja, Manila. Þar segir að ríkisstjórn Rodrigos Dutertes hafi upplýst fulltrúa sambandsins um þetta í dag. Duterte hefur farið mörgum og ófögrum orðum um Evrópusambandið að undanförnu vegna harðrar gagnrýni sem þaðan hefur komið á blóðugt eiturlyfjastríð forsetans.

Frans Jessen, sendiherra Evrópusambandsins í Manila, segir að þetta muni hafa áhrif á styrki sem nema samtals um 250 milljónum evra, ríflega 28 milljörðum króna á gengi dagsins. 

Duterte hefur ekki vandað ESB kveðjurnar síðustu vikur og mánuði. Talsmenn Evróuþingsins og framkvæmdastjórnar ESB hafa margfordæmt aðfarir Duterte-stjórnarinnar í eiturlyfjastríðinu, sem kostað hefur þúsundir mannslífa í blóðbaði sem á ekkert skylt við löggæslu í réttarríki. Duterte hefur svarað fullum hálsi. Í fyrra sendi hann Evrópuþinginu fingurinn og líkti eiturlyfjastríði sínu við aðfarir Hitlers og nasista gagnvart Gyðingum, við litla hrifningu stjórnvalda í Berlín.

Lögregluyfirvöld á Filippseyjum staðfesta dráp á um 2.700 manns á því tæpa ári sem liðið er síðan Duterte lýsti stríði á hendur öllu og öllum sem tengjast eiturlyfjaframleiðslu og -sölu í landinu. Óþekktir árásarmenn hafa myrt um 1.800 til viðbótar hið minnsta og um 5.700 dauðsföll sem talin eru af mannavöldum eru til rannsóknar hjá lögreglu.

Sambandi Filippseyja og Evrópuríkja hefur hrakað mjög síðan Duterte tók við völdum í fyrrasumar og hið sama er að segja um mikilvægasta bandamann Filippseyja um áratugaskeið, Bandaríkin. Á sama tíma hefur Duterte freistað þess að styrkja samskiptin við Kínverja og Rússa.