Dróni stöðvaði flugumferð á Arlanda

07.08.2017 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube
Flugumferð um Arlanda flugvöll við Stokkhólm stöðvaðist í tæpa klukkustund síðdegis þegar vart varð við dróna á flugi í grennd við völlinn. Engum flugvélum var leyft að koma til lendingar eða taka á loft meðan dróninn var á sveimi.

Á fréttavef Expressen segir að tveir flugstjórar hafi tilkynnt að þeir væru orðnir eldsneytislitlir, en þeir náðu að lenda áður en geymarnir tæmdust. Lögregla var látin vita af drónanum, þar sem bannað er að vera með slík tæki á lofti nálægt flugvöllum. Eigandinn hafði ekki fundist síðast þegar fréttist.

Alls lá flugumferð niðri um Arlanda í 55 mínútur vegna atviksins.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV