Drög að samningi ESB og Tyrkja samþykkt

08.03.2016 - 02:17
epa05200140 Turkish Prime Minister Ahmet Davutoglu (L) and European council President Donald Tusk speak during a news conference at the end of an extraordinary summit of European Union leaders with Turkey in Brussels, Belgium, 08 March 2016. Turkish
Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, og Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins.  Mynd: EPA
Grundvallaratriði samkomulags á milli Evrópusambandsins og Tyrkja voru samþykkt á fundi þeirra í Brussel í kvöld. Stefnt er að því að bera fullkláraðan samning á borð á fundi leiðtogaráðs ESB í næstu viku. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðsins, segir straum ólöglegra innflytjenda til Evrópu heyra sögunni til.

Meginatriði samkomulagsins eru þau að allir þeir sem reyni hér eftir að koma ólöglega yfir Eyjahafið frá Tyrklandi til Grikklands verði snúið við á kostnað ESB. Fyrir hvern sýrlenskan flóttamann sem snúið er við af Eyjahafinu verður sýrlenskum flóttamanni á Tyrklandi veitt hæli í einhverju ríkja ESB. 

Greiðslu þriggja milljarða evra fjárhagsaðstoðar verður flýtt. Tekin verður ákvörðun um aukafjárveitingu fyrir flóttamannaaðstöðu fyrir Sýrlendinga í Tyrklandi fyrir lok mars. Unnið verður með Tyrkjum að því að bæta aðstæður til mannúðaraðstoðar innan Sýrlands svo íbúar og flóttamenn í landinu geti búið við frekara öryggi.

Þá var ákveðið að opna nýja kafla í aðildarviðræðum Tyrkja við ESB hið fyrsta og flýta fyrir því að Tyrkir geti ferðast til Evrópuríkja án vegabréfsáritunar.

Smygl á flóttamönnum heyri sögunni til

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdaráðs ESB, sagði eftir fundinn að tillögurnar muni grafa undan þeim sem hafa tekjur af því að smygla flóttamönnum yfir Eyjahafið. Ekki verði lengur eftirsóknarvert að sigla yfir til Grikklands, því þá verði fólk sent aftur til Tyrklands og lendi aftast á listanum yfir þá sem eigi möguleika á hæli í ESB.

Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Grikklands, segir samkomulagið eiga eftir að gjörbreyta núverandi ástandi. Ákvörðunin komi til með að draga úr tilraunum til þess að komast ólöglega til ESB ríkja, bjarga mannslífum og gera út af við starfsemi smyglara.

Í yfirlýsingu leiðtogaráðs ESB er lögð rík áhersla á aðstoð við Grikki við landamæraeftirlit við Makedóníu og Albaníu, sem eru utan ESB, og við að snúa ólöglegum flóttamönnum aftur til Tyrklands. Áframhaldandi samstarf er boðað við Evrópulönd utan ESB. Í lokin er lögð áhersla á að samkomulagið sé vegur að því að opna aftur á landamæri innan Schengen-svæðisins og því verki verði lokið fyrir árslok.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV