Drengurinn er fjögurra ára Breti

05.01.2016 - 07:22
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr myndskeiði  -  Myndskeið
Drengur sem kemur fyrir í nýju áróðursmyndbandi hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins er Isa Dare, fjögurra ára breskur ríkisborgari. Afi hans Henry Dare staðfestir að svo sé í viðtali við Breska ríkisútvarpið, BBC. Dóttir hans, Grace Dare, hafi tekið drenginn með sér til Sýrlands árið 2013.

Í myndskeiðinu sem er tíu mínútna langt sést hvar fimm menn virðast teknir af lífi með skoti í hnakkann. 

Henry Dare segir að Grace Dare, sem einnig gengur undir nafninu Khadijah, er af bresk-nígerískum uppruna og snerist til íslam þegar hún var 18 ára. Hún fór til Sýrlands árið 2013, þegar hún var 22 ára. Þar hafi hún gifst Svía, Abu Bakr að nafni. The Telegraph segir að hann hafi fallið. Hún var alin upp í kristinni trú og gekk í kaþólskan barnaskóla. 

„Þetta er dóttursonur minn,“ segir Henry Dare í viðtali við BBC. „Ég get ekki afneitað honum, þetta er barnabarn mitt. Ég þekki hann mjög vel.“ Í viðtali við Telegraph segir hann að hann hafi að sjálfsögðu áhyggjur en að það sé ekkert sem hann geti gert. „Ég er ekki reiður. Ég vona bara að einhver sé að reyna að ná þeim aftur heim.“

Að minnsta kosti 700 Bretar hafa farið utan til að styðja við eða berjast fyrir hryðjuverkasamtökin í Sýrlandi og Írak. Þetta hefur BBC eftir bresku lögreglunni. Um helmingur þeirra hefur snúið aftur til Bretlands.

BBC greinir frá því að maðurinn sem er í forgrunni í myndskeiðinu sé Breti að nafni Siddhartha Dhar, hindúi sem snerist til íslam og varð fljótt róttækur. Yfirvöld hafi hinsvegar ekki staðfest það.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að myndskeiðið til marks um örvæntingu hryðjuverkasamtakanna sem séu að missa yfirráðasvæði úr greipum sínum.

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV