Dregur úr trausti til heilbrigðiskerfisins

12.03.2016 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins hefur ekki mælst lægra í þjóðarpúlsi Gallup. Traust til dómskerfisins og borgarstjórnar dróst mikið saman milli ára en traust til Landhelgisgæslunnar og embættis forseta Íslands eykst.

Frá árinu 1997 hefur hlutfall þeirra sem bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins mælst á bilinu 60-70%. Það mældist hæst 2011 eða 74% en hefur lækkað árlega síðan. Það mælist nú 46 prósent og fellur um 14 prósentustig milli ára eða mest allra stofnana sem könnun Gallup tekur til.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup.

Flestir bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar eða 92% og eykst hlutfallið um 11 prósentustig milli ára. 74% bera mikið traust til Lögreglunnar en traust til hennar mældist 83% fyrir tveimur árum. Traust til embættis forseta Íslands eykst mest milli ára eða um 14 prósentustig.

Líkt og undanfarin ár bera fæstir mikið traust til bankakerfisins og Alþingis eða 12 og 17%. Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til borgarstjórnar Reykjavíkur dregst mikið saman eða um 12 prósentustig milli ára og mælist nú 19%. Þá minnkar traust til dómskerfisins um 11 prósentustig milli ára og mælist 32%.

Mynd með færslu
 Mynd: Gallup  -  RÚV
Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til helstu stofnana, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup.

Netkönnun Gallup var framkvæmd annars vegar dagana 12. – 22. febrúar, þátttökuhlutfall var 62,9% og úrtaksstærð 1440, og hins vegar dagana 23. – 29. febrúar, þátttökuhlutfall var 61% og úrtaksstærð 1438 einstaklingar. Einstaklingarnir voru 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup. Spurt var: „Hversu mikið eða lítið traust berð þú til ...?“. Stofnanir og embætti birtust í tilviljunarkenndri röð.

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV