Draumrof - Úlfar Þormóðsson

Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Bók vikunnar

Draumrof - Úlfar Þormóðsson

Bókmenntir
 · 
Menningarefni
 · 
Bók vikunnar
Mynd með færslu
13.03.2017 - 22:27.Jórunn Sigurðardóttir.Bók vikunnar
„Maðurinn sem féll í götuna í skáldsögunni Uggur varð að fá að rísa upp,“ segir Úlfar Þormóðsson að hafi verið kveikjan að skáldsögu hans Draumrof sem er bók vikunnr á rás 1 þessa viku. Í vikunni les Úlfar brot úr sögunni í þættinum Víðsjá á mánudag og miðvikudag. Á fimmtudag má svo hlusta á viðtal við Úlfar um bókina sem fer vítt um heima í eiginlegum og óeiginlegum skilningi auk þess að fjalla um hrun bankakerfis og fall manneskju.

Draumrof kom út fyrir síðustu jól og fór ekki hátt en þótti þeim mun áhugaverðari af þeim sem kynntust bókinni enda fékk hún afbragðsdóma. Þetta er ekki löng skáldsaga en hún er innihaldsrík og fer víða um lendur  skáldskapar og veruleika. Hún gerist í Reykjavík og úti í heimi; hún fjallar um Hrunið með stóru hái en líka um fall einstaklings, um minni og gleymsku sem og um þjóðsögur fyrr og nú.

Umsjónarmaður þáttarins Bók vikunnar á rás 1 19. mars nk. er Halla Þórlaug Óskarsdóttir og viðmælendur hennar eru Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur og lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og Andri Már Kristjánsson bókmenntafræðingur.

Úlfar Þormóðsson hóf rithöfundarferil sinn fyrir fimmtiu árum þegar fyrsta skáldsaga hans Sódóma – Gómorra kom út árið 1966. Hann hefur sent frá sér rúmlega tuttugu bækur síðan, skáldsögur og ævisögur sem og sögur félagasamtaka og bækur um pólitískt ástand á ýmsum tímum. Bækur hans um Íslendinga í barbaríinu vöktu verðskuldaða athygli og skáldsaga hans um Hallgrím Pétursson var umdeild. Síðustu bækur Úlfars voru ævisögur nánustu fjölskyldu hans. Í Farandskuggum frá árinu 2011 stykkjar sonur saman líf aldraðrar móður. Faðirinn er svo á dagskrá í Boxarinn frá árinu 2012 og árið 2015 var svo komið að Úlfari sjálfum í bókinni Uggur þar sem sá atburður á sér stað að maður fellur um misfellu í gangstétt á Skólavörðustíg og sá maður er einmitt söguhetja bókarinnar Draumrof.

Hér má hlusta á þáttinn í heild.