Dramatískur sigur Íslands gegn Norðmönnum

15.01.2016 - 19:06
Ísland vann góðan sigur á Norðmönnum á Evrópumótinu í handbolta sem hófst í Póllandi í dag, 26-25. Björgvin Páll Gústavsson varði á ögurstundu í íslenska markinu og tryggði að íslenskan sigur. Aron Pálmarsson átti stórleik.

Norðmenn fóru betur af stað og komust í 0-2 áður en Íslendingar komust á blað. Kristian Bjørnsen var heitur í hægra horninu hjá Norðmönnum og skoraði tæplega helming marka liðsins í fyrri hálfleik. Sóknarleikur íslenska liðsins var nokkuð stirður og tapaði liðið sex boltum í fyrri hálfleik gegn tveimur hjá Noregi. Aron Pálmarsson dró vagninn hjá íslenska liðinu.

Ísland komst í fyrsta sinn yfir í leiknum í stöðunni 7-6 þegar Guðjón Valur skoraði úr vítakasti en í kjölfarið komu þrjú mörk í röð frá Norðmönnum sem náðu yfirhöndinni. Aron fékk tækifæri til að jafna metinn með síðasta skoti fyrri hálfleiks en skotið hafnaði í þverslánni. Staðan í hálfleik, 10-11 fyrir Norðmenn.

Íslendingar byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur - áttu frábæran kafla þar sem liðið náði þriggja marka forystu í stöðunni 18-15. Norðmenn komu hins vegar sterkir tilbaka, skoruðu þrjú mörk í röð og jöfnuðu leikinn 19-19. Íslendingar höfðu yfirhöndina en Norðmenn voru aldrei langt undan.

Ótrúleg lokamínúta
Óhætt er að segja að lokamínútan hafi boðið upp á dramatík. Þegar hálf mínúta var eftir af leiknum var staðan jöfn 25-25 og Íslendingar í sókn. Guðjón Valur fór inn úr horninu þegar um tíu sekúndur voru eftir, skoraði og kom Íslendingum yfir. Norðmenn fóru í lokasóknina en Björgvin Páll varði lokaskot Norðmann og Íslendingar fögnuðu gríðarlega mikilvægum sigri.

Aron Pálmarsson sýndi hvers vegna hann er talinn einn besti handknattleiksmaður heims. Hann var frábær hjá íslenska liðinu en hann skoraði 8 mörk í leiknum auk þess að gefa fjölmargar stoðsendingar. Guðjón Valur kom næstur með 6 mörk en hann var mjög öruggur af vítapunktinum. Björvin Páll Gústavsson varði 15 skot, þar af tvö víti.

Næsti leikur Íslands er gegn Hvíta-Rússlandi á sunnudag og hefst leikurinn í beinni útsendingu RÚV kl. 14:30.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður