Donald Drumpf

Mynd með færslu
 Mynd: Last Week Tonight  -  RÚV
John Oliver, stjórnandi þáttarins Last Week Tonight á bandarísku sjónvarpsstöðinni HBO, tók Donald Trump fyrir í gær. Óhætt er að segja að Oliver hafi skilið silkihanskana eftir heima þegar hann fjallaði um feril Trumps sem talinn er líklegastur til að verða útnefndur forsetaefni Rebúblikanaflokksins.

Oliver fór yfir misheppnaðar fjárfestingar Trumps og nefndi ótal dæmi þar sem Trump hefur gerst missaga eða hreinlega logið í fjölmiðlum. Oliver benti á að Trump hefði eytt ævinni í að tengja nafn sitt við velgengni og ríkidæmi á sama tíma og raunin væri önnur. Í lok þáttarins benti hann því á að fjölskyldunafn Trumps hefði áður verið Drumpf sem væri öllu tilkomuminna.

Oliver hvatti áhorfendur til að nota merkið #MakeDonaldDrumpfAgain á samfélagsmiðlum, setti í loftið vefsíðu um það sama og gekk jafnvel svo langt að búa til viðbót í vafrann Chrome þar sem nafninu Trump er breytt í Drumpf.