Dómurinn í Ungverjalandi „mikið áfall“

22.01.2016 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, verjandi íslenskrar konu sem hefur verið dæmd í fimm ára skilorðsbundið fangelsi fyrir alvarlega líkamsárás í Ungverjalandi, segir að dómurinn sé mikið áfall. Mikill vafi leiki á sekt skjólstæðings hennar. Því hafi verið ákveðið að áfrýja dómnum sem kveðinn var upp í fyrradag.

Atvikið átti sér stað sumarið 2012 þegar konan var við læknanám í borginni Debrecen. Í ákæru kemur fram að hún hafi sett svefnlyf í mat vinkonu sinnar og síðar barið hana tvívegis í höfuðið með hamri. Vinkonan var flutt á spítala með áverka á höfði auk þess sem svefnlyf fannst í blóði hennar. Íslenska konan var handtekin skömmu síðar en neitaði sök. Fram kemur í dómsorði að ósamræmi hafi verið í málflutningi hennar en að framburður stefnanda og átta vitna hafi verið sannfærandi. Því þyki fimm ára skilorðsbundinn dómur hæfilegur.

„Viðbrögðin eru þau að þetta er mikið áfall en á móti kemur að miðað við hvernig rannsóknin hefur farið fram og hvernig tekið var á málunum í dómsal kom þetta umbjóðanda mínum ekkert gífurlega á óvart,“ segir Ingibjörg.

Hún segir að búið sé að áfrýja dómnum munnlega til áfrýjunardómstóls en að það verði gert með formlegum hætti þegar ensk þýðing á dómnum verður tilbúin.

„Við erum að vona að sá vafi sem er í málinu verði túlkaður skjólstæðingi mínum í vil.“

Þessi dómur virðist mjög afgerandi, þar kemur fram að misræmi hafi verið í framburði skjólstæðings þíns en framburður stefnanda og átta vitna hafi verið sannfærandi. Hver eru viðbrögð þín við því?

„Miðað við þann framburð sem hefur komið frá mínum umbjóðanda hefur hún verið mjög staðföst í sínum framburði hvað varðar tímasetningu og atburðarrás. Þannig að það kom okkur mjög á óvart að heyra af þessu.“

Vill vinna áfram sem læknir

Ingibjörg segir að málsmeðferðin hafi verið undarleg og að málið hafi ekki verið rannsakað nægjanlega vel. Skjólstæðingur hennar haldi því fram að framburður stefnanda sé uppspuni frá rótum.

„Hún heldur því fram að hún sé saklaus og mun gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að hreinsa nafn sitt af þessum ásökunum.“

Ingibjörg segir það vissulega sérstakt, að dómur fyrir alvarlega líkamsárás sé skilorðsbundinn. Ákæruvaldið hafi hins vegar breytt kröfum um fangelsisvist yfir í skilorðsbundna refsingu á síðasta degi málflutnings.

Konan vann sem læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi þangað til greint var frá ákærunni í október. Hún var þá send í leyfi. Ingibjörg segir að hún hafi áfram hug á því að starfa sem læknir.