Dökkt útlit fyrir stjórnarmyndun á Írlandi

28.02.2016 - 15:15
epaselect epa05183494 Counting of votes in the Dublin City count centre in Dublin, Ireland, 27 February 2016. Ireland's governing Fine Gael party has conceded that it had a 'disappointing' election as authorities began counting votes a day
 Mynd: EPA
Fianna Fáil flokkurinn á Írlandi, sem bætti við sig umtalsverðu fylgi í nýafstöðnum þingkosningum, útilokar alfarið að mynda samsteypustjórn með stjórnarflokknum Fine Gael eða með Sinn Féin, flokki Gerry Adams. Ljóst er að núverandi stjórn er fallin en hana myndaði Fine Gael með Verkamannaflokknum.

Báðir stjórnarflokkarnir töpuðu miklu fylgi og Verkamannaflokkurinn nánast þurrkaðist út. Fine Gael er þó líklega ennþá stærsti flokkur landsins en talning atkvæða stendur enn yfir. Breska dagblaðið Guardian hefur eftir áhrifamönnum í Fianna Fáil að þrátt fyrir að vera ótvíræðir sigurvegarar kosninganna geti þeir ekki hugsað sér að setjast í stjórn með fornum fjendum sínum í Fine Gael og láta þannig Sinn Féin um að leiða stjórnarandstöðuna.

Verði niðurstaðan sú að Fine Gael fái flest atkvæði, eins og virðist vera raunin, sé það undir þeim komið að leita á náðir minni flokka og óháðra þingmanna til að reyna að púsla saman stjórn. Það flækir málið enn frekar að leiðtogar Sinn Féin vilja heldur ekki taka þátt í stjórnarmyndun og Gerry Adams, leiðtogi flokksins, hefur sagt sínum mönnum að búa sig undir nýjar kosningar.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV