RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Do you speak Icelandic?

Íslenska virðist ekki eiga upp á pallborðið í mörgum verslunum og veitingastöðum á meðan ferðamannatíminn stendur sem hæst. Mögulega má segja að hún sé orðin hornreka í eigin landi. Þeirri þróun má hæglega snúa við með samstilltu átaki.

Íslenskt mál í ferðaþjónustunni

Margir hafa kvartað yfir því erfitt sé að finna starfsfólk sem talar íslensku á stöðum sem þjónusta ferðamenn vítt og breitt um landið. Á mörgum hótelum, veitingastöðum, tjaldstæðum og víðar sé aðeins starfsfólk sem ekki tali íslensku og það sé jafnvel erfitt að finna upplýsingar s.s. matseðla, verðskrár og þess háttar á íslensku.

Mögulega er eitthvað til í þessu. Víða eru erlendir starfsmenn og tvennt getur ráðið því. Annars vegar að vinnuveitendur sjái sér hag í því að hafa útlendinga í vinnu þar sem fyrirtækið þjónusti erlenda ferðamenn og hins vegar að þeim veitist erfitt að fá Íslendinga í vinnu. Við getum ekki ætlast til þess að útlendingar sem hingað koma til að vinna í nokkra mánuði nái þeim tökum á íslensku á örstuttum tíma að þeir treysti sér til að tala hana við heimamenn.

Aftur á móti er ekkert undarlegt þótt íslenskir ferðamenn í eigin landi fyrtist við þegar þeir fara á hvern staðinn á fætur öðrum og geta ekki notað málið sitt, málið sem hér er talað og er opinbert tungumál í landinu, til þess að eiga þau viðskipti sem þeir hafa hug á. Það er óboðlegt að upplýsingar á vefsíðum, matseðlar, verðlistar og þess háttar sé ekki annars vegar á íslensku og hins vegar á ensku eða öðru tungumáli.

Hinu má ekki heldur gleyma að þeim útlendingum sem hingað koma finnst yfirleitt jafnáhugavert að heyra málið sem hér er talað og sjá hvernig það lítur út eins og þeim finnst að kanna íslenska náttúru og kaupa sér lopapeysur sem eru handprjónaðar á Íslandi úr íslenskri ull. Íslenska er forvitnilegt mál með sitt sérstaka hljóðafar og undarlegu séríslensku bókstafi. Ferðamenn hafa gaman af að spreyta sig á framburðinum, hrista jafnvel hausinn yfir því hvað málið hljómar undarlega og furða sig á því að nokkur maður skuli geta náð tökum á því. Það virðist sem þeir sem starfa við ferðaþjónustu og eigendur verslana og veitingastaða taki það ekki með í reikninginn og það lítur jafnvel út fyrir að margir vilji nánast fela íslenskuna eins og hún sé óframbærileg og eitthvað til að skammast sín fyrir.

Ég legg til að við snúum dæminu við. Drögum íslenskuna fram í dagsljósið, stillum henni upp samhliða ensku, þýsku og kínversku eða hverjum þeim málum sem útbreiddust eru, gerum henni jafnhátt undir höfði og sýnum ferðamönnunum að hún er jafnáhugaverð og náttúran, ullin og heitu pottarnir. Vinnuveitendur ættu að kappkosta að raða íslenskum og erlendum starfsmönnum saman á hverja vakt. Þeir ættu líka að leggja það á sig að kenna erlendum starfsmönnum sínum íslensku heitin á matseðlinum eða algengustu vörunum í versluninni svo að dæmi séu nefnd. Starfsfólk veitingahúsa og hótela, bæði Íslendingar og útlendingar, ættu að venja sig á að bjóða gestum sínum alltaf góðan dag á íslensku. Útlendingarnir kunna að meta það og íslensku ferðamennirnir líka.

Of mikið í lagt

Víkjum þá því sem betur má fara í máli manna. Hlustandi einn hafði fram að færa margar góðar ábendingar um mál og málfar. Hann var t.d. heldur óánægður með orðið samstarfsfélagi. Honum fannst það sambærilegt við orðið sturtubaðvörður, sem engum dytti í hug að nota. Ástæðan er sú að bæði orðin fela í sér endurtekningu. Forliðnum sam- er ofaukið í orðinu samstarfsfélagi. Starfsfélagi er meira en nóg. Svo má líka sem best nota orðið vinnufélagi meira. Það virðist alveg vera hætt að heyrast og það er þónokkur eftirsjá í því. Í orðinu samstarfsfélagi er greinilega slegið saman orðunum samstarfsmaður og vinnufélagi. Í þessu samhengi má líka rifja upp orðin samlanda og samlandi. Mörgum finnst forliðnum sam- ofaukið í þeim. Það sé feikinóg að tala um löndur og landa. Merkingarlega eru þessi orð sambærileg við orðin nafna og nafni sem engum dettur í hug að tala um sem samnöfnu eða samnafna. Enginn myndi segja, jæja samnafni, hvað segirðu? Loks er það svo orðið samnemendur, sem þessi sami hlustandi benti á. Hann var á því að orðið skólafélagar, að ekki sé talað um skólasystkin, væri alveg hætt að heyrast. Bæði orðin eru hlýleg og falleg og það mætti vel nota þau meira.

Rosalega frábærir hlutir í gangi

Þessi ágæti hlustandi var búinn að fá sig fullsaddan af orðunum rosalega, frábær og hlutur og orðasambandinu í gangi. Hér er aðeins svigrúm til þess að fjalla um tvö af þessum atriðum, hlutina og í gangi.

Það er mjög vinsælt að nota orðalagið í gangi um allt og hvað sem er. Undanfarið hafa verkföll verið í gangi. Samningaviðræður hafa líka verið í gangi. Þá eru alls konar sýningar í gangi út um allt og ekki má heldur gleyma öllum rannsóknunum sem eru í gangi öllum stundum. Já, og allri rannsóknarvinnunni sem er í gangi alls staðar. Úttektir, verkefni, jafnvel bæjarhátíðir, alltaf er eitthvað slíkt í gangi. Þá er líka stækkun í gangi, svo eru tilboð í gangi, námskeið, kenningar og tilraunir. Auðvitað er líka undirbúningur, tónleikar og fundur í gangi. En það er víst ekki þjóðarsátt í gangi. Alla vega stendur það einhvers staðar úti á netinu. Merkingin er oftast einfaldlega bara að vera og það er líka stundum sagt standa eða standa yfir. Oft er í gangi haft um það sem er tímabundið. Fundurinn er núna, hann byrjaði fyrir hálftíma og honum lýkur eftir einn og hálfan tíma. Sýningin er núna, hún stendur yfir í sex vikur. Það er bæjarhátíð þessa helgina, hún stendur núna og svo framvegis. 

Það er orðið tímabært að finna annað orðalag sem getur leyst í gangi af hólmi. Það er svo ofnotað í þessu samhengi auk þess að vera bæði flatt og ljótt. Að ekki sé talað um hið útjaskaða „það er bara allt í gangi“ sem á sér systurina „það er bara allt að gerast“. Það er samt ekki bannað að segja í gangi. Vélar eru settar í gang og hafðar í gangi. Og svo er hægt að spyrja hvað sé í gangi en það hefur samt eiginlega alveg komið í staðinn fyrir spurningarnar „hvað gengur á“ og „hvað er að gerast“. Notum fjölbreytt orðalag og gefum orðasambandinu í gangi góða hvíld um langa hríð.

Annað útlifað orðalag er að gera góða hluti, jafnvel rosalega góða hluti eða alveg frábæra hluti. Þetta er engu að síður mjög vinsælt. Til dæmis greinir netið frá því að íþróttamenn og heilu íþróttafélögin séu enn að gera góða hluti. Líka loðnuvinnslan, hjólreiðafélagið, ungir Ölfusingar, tónlistarmenn og prestar svo að nokkrir séu taldir.

Á netinu eru mörg hundruð þúsund dæmi um bæði í gangi og gera góða hluti og það segir okkur að hvort tveggja er ofnotað. Það var einu sinni mjög nýtt, ferskt og skemmtilegt að segjast vera að gera góða hluti en það er fyrir löngu orðið að þreyttri og útjaskaðri klisju þótt það lifi ennþá góðu lífi. Í staðinn fyrir að segja að einhver sé að gera góða hluti er hægt að segja að hann geri það gott, standi sig vel, spjari sig, sé vandanum vaxinn, slái í gegn eða eitthvað annað frumlegt og skemmtilegt svo að það er engin ástæða til að festa sig í því að gera góða hluti.

21.07.2015 kl.16:32
Mynd með færslu
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Morgunútgáfan