Demókratar og Trump semja um innflytjendur

14.09.2017 - 03:50
epa06202957 US President Donald J. Trump (C) delivers remarks during a bipartisan meeting of US representatives on tax reform in the Cabinet Room of the White House in Washington, DC, USA, 13 September 2017.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Demókratar á Bandaríkjaþingi eru nálægt því að ná samkomulagi við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um réttindi ólöglegra innflytjenda sem komu til Bandaríkjanna sem börn. Chuck Schumer og Nancy Pelosi, leiðtogar Demókrata í öldunga- og fulltrúadeildum Bandaríkjanna, greindu frá þessu í sameiginlegri yfirlýsingu í gærkvöldi.

Demókratarnir sögðu að Trump hafi verið sammála þeim um drög að samkomulagi um að vernda þá sem komu ólöglega til Bandaríkjanna sem börn og ná sáttum um öryggi við landamærin án þess að reistur verði múr. Skömmu síðar birtist yfirlýsing frá Hvíta húsinu þar sem sagt var að fundurinn hafi verið uppbyggilegur en ekkert hafi verið samþykkt.

Demókratar snæddu kvöldverð í boði forsetans í gærkvöld. Undanfarna daga hafa hugmyndir Demókrata náð eyrum forsetans í meira mæli, áhyggjufullum íhaldsmönnum innan Repúblikanaflokksins til mikillar armæðu. Repúblikanar höfðu vonast eftir því að Trump stæði við loforð sín um hert landamæraeftirlit og stranga innflytjendastefnu. Trump sagði sjálfur við blaðamenn fyrr í gær að hann vonaðist eftir samkomulagi sem næði til beggja flokka. Mörg bestu lagafrumvarpa sem farið hafi í gegnum þingið hafi verið studd af báðum flokkum, og því vilji hann gefa því tækifæri.

Wall Street Journal hefur eftir þingmönnum sem sátu kvöldverðinn að Trump hafi verið fús að íhuga að aðskilja umræðuna um fjármögnun landamæramúrsins frá umræðunni um stöðu ungra innflytjenda. Þá vildi hann mögulega bæta við skilmálum sem gera fólki erfiðara um vik að gerast löglegir innflytjendur í Bandaríkjunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV