Dekkri hliðar Hildar

Hildur
 · 
Lestin
 · 
Popptónlist
 · 
Menningarefni

Dekkri hliðar Hildar

Hildur
 · 
Lestin
 · 
Popptónlist
 · 
Menningarefni
17.05.2017 - 17:06.Jóhannes Ólafsson.Lestin
Tónlistarkonan Hildur gaf á dögunum út EP-plötuna Heart to heart, en á henni má heyra dekkri lagasmíðar en fólk á að venjast frá söngkonunni.

Hildur hefur staðið í ströngu þetta árið, hún tók þátt í Söngvakeppninni í annað sinn, átti lag ársins 2016 og hefur nú gefið út EP-plötu. „Söngvakeppnin var einn allsherjar rússíbani,“ segir Hildur í samtali við Lestina. „En svo kláraði ég að vinna þetta sex laga EP sem ég var að gefa út á föstudaginn. Það er svona það sem hefur staðið upp úr, mjög ólíkir hlutir í rauninni; að taka þátt í Söngvakeppninni og að vinna svo EP-plötu sem er kannski aðeins dýpri.“

Umslag nýrrar plötu Hildar, Heart to Heart.

Eurovision oft misskilið

Hildur segir að fólk myndi sér oft neikvæðar skoðanir á Eurovision þrátt fyrir vinsældir keppninnar. „Rosalega margir eru fljótir að dæma og segja að öll lögin í þessu séu bara eitthvað sorp. Mér finnst það ótrúlega leiðinlegt því þetta eru oft mjög færir lagahöfundar sem eru að taka þátt og leggja mikla vinnu í þetta. Það er ekkert grín að semja lag sem hrífur fólk á þremur mínútum.“ Hún segir ennfremur að lag hins portúgalska Salvador Sobral hafi verið ferskur andvari í keppnina og minnt fólk á að þetta sé fyrst og fremst lagasmíðakeppni.

Áskorun að semja lög sem voru gleðigjafar

Hildur segir að nýju lögin á EP-plötunni séu myrkari en þau sem hún hefur gefið út áður. „Ég var búin að gefa út þrú af þessum lögum áður og það má eiginlega segja að þau séu meira hress og poppuð.“ Nýju lögin séu hins vegar dekkri og tilfinningaríkari og hún hafi gaman af að sína fólki þá hlið á sér. „Fólk sem er að kynnast mér sem popptónlistarkonu þekkir kannski ekki það sem ég hef gert áður. En ég var í hljómsveit sem heitir Rökkurró í mörg ár og við gáfum út þrjár plötur og þær voru oft svolítið dimmar og þungar [...] og það er mér eiginlega eðlislægara að semja svoleiðis lög.”

Myndbandsgerð og lagasmíðabúðir framundan

Á döfinni hjá Hildi er myndbandsgerð og þátttaka í svokölluðum lagasmíðabúðum, einum í Danmörku og öðrum í Noregi. Fyrri búðirnar eru með áherslu á norrænar lagasmíðar þar sem samið er á norrænum tungumálum. „Þar verða mín fyrstu skref að semja með öðrum. Ég hef yfirleitt samið popplögin mín ein þannig það verður áhugavert að vinna að lagasmíðum í teymi.“

Nýja platan frá Hildi er meðal annars aðgengileg á Spotify:

Lestin fékk í heimsókn popptónlistarkonuna Hildi og hún fór yfir það helsta sem hún hefur verið að gera undanfarið.