Deilt um nálægð við hausaþurrkun

06.03.2016 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd: ??  -  wikipedia.org
Tvær undirskriftasafnanir eru í gangi meðal íbúa á Akranesi, með og á móti breytingum á deiliskipulagi í bænum, en málið tengist þurrkun á fiskhausum.

Önnur undirskriftasöfnunin er á vegum formlega óstofnaðra samtaka sem kalla sig Betra Akranes, sem eru á móti breytingum á deiliskipulaginu, en hinn hópurinn kallar sig Uppbygging á Akranesi og vill sá hópur heimila breytingarnar.

Deiliskipulagið umdeilda er á svæði sem heitir Breið, en þar er fyrirtækið Laugafiskur, sem er í eigu HB Granda,  með áform um uppbygingu. Stefnt er að því að fiskhausaþurrkun fyrirtækisins færist undir eitt þak  í nýju húsi. Samkvæmt Skessuhorni er fyrirtækið  nú með starfsleyfi sem heimilar vinnslu 170 tonna á viku, en fullbúin geti verksmiðjan afkastað um 600 tonnum á viku. Íbúa Akraness greinir á um hversu góður kostur þetta er og er þá vísað til loftmengunar frá starfseminni.

Þeir sem styðja breytingarnar fóru af stað með undirskriftasöfnun og segja á heimasíðu sinni að með tillögum HB Granda að breyttu skipulagi verði best tryggt að mannlíf og atvinnulíf á Akranesi haldi áfram að blómstra. Fyrirtækið hafi sýnt á margvíslegan hátt að því sé treystandi þegar kemur að umhverfismálum í mikilli nálægð við íbúa.

Betra Akranes hópurinn fóru viku síðar af stað með sína undirskriftasöfnun þar sem segir óumdeilt að fiskþurrkun valdi lyktarmengun og hún rýri lífsgæði íbúa á svæðinu. Hún muni hafa neikvæð áhrif á útivistarsvæði á Breiðinni, á uppbyggingu gamla bæjarins og  Sementsreitsins.

Undirskriftasöfnununum lýkur 28. og 29. mars. 644 hafa lýst yfir stuðningi við breytt deiliskipulag, en 350 lagst gegn því. 

 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV