Mynd með færslu
17.02.2016 - 18:06.Guðni Tómasson.Víðsjá
Gunnar Theodór Eggertsson fjallaði um tvær bíómyndir í Víðsjá á Rás 1 sem hafa vakið miklar athygli.

Deadpool 

Deadpool er undarleg ofurhetja, nokkurs konar sjálfsmeðvituð andhetja sem gerir í því að brjóta hefðbundnar reglur ofurhetjugeirans. Hann varð til í tengslum við X-Men myndasögurnar árið 1991 og fyrst um sinn var hann nokkuð venjulegur, en eftir því sem leið á tíunda áratuginn tók hann að fara sínar eigin leiðir og myndasöguhöfundarnir nýttu hann til að leika sér með formið og brjóta upp formúlurnar. Deadpool varð þannig ofurhetja sem veit að hann er myndasagnapersóna, ávarpar lesandann iðulega beint, rífst við sinn eigin innri díalóg og gengur jafnvel svo langt að lesa sjálfur gömul myndasögublöð til að kynnast óvinum sínum betur. Sögurnar um hann eru á köflum mjög fyndnar, skemmtilega anarkískar og „meta“, og sérstaklega ofbeldisfullar og ýktar, því Deadpool gefur lítið fyrir siðaboðskap kollega sinna og hikar ekki við að slátra óvinum sínum. Hann er enn fremur truflaður á geði og fortíð hans er bæði óljós og óræð, því hann er svo sveiflukenndur karakter í eðli sínu. Sem sagt: Deadpool er með áhugaverðari ofurhetjum sem hafa prýtt myndasagnablöðin og nú er hann loksins búinn að fá sína eigin mynd, sem hefur verið á leiðinni í áratug og því beðið með mikilli eftirvæntingu. 

Deadpool heitir í raun Wade Wilson, málaliði sem greinist með krabbamein á háu stigi og er talinn dauðvona. Hann er trúlofaður og vill ekki að heitkona sín, Vanessa, fylgist með honum veslast upp og deyja. Af þeirri ástæðu býður hann sig fram til vafasamra samtaka sem segjast geta læknað hann af krabbameininu með því að virkja erfðabreytingu í líkama hans og kalla fram ofurkrafta í leiðinni. Umskiptin eru gríðarlega sársaukafull, taka langan tíma og gera að verkum að Wilson verður ódauðlegur – líkami hans endurnýjar sig og læknar öll sár, en fyrir vikið lítur hann út eins og uppvakningur. Wilson er ánægður með lífið og kraftinn, en ekki útlitið, og leitar hefnda gegn samtökunum fyrir að breyta honum svona. Sagan er þannig til helminga upprunasaga hetjunnar og hefndarsaga. Hún er fínasta skemmtun, yfirgengilega ofbeldisfull á hátt sem aðrar ofurhetjumyndir geta ekki leyft sér, og að mestu leyti frekar fyndin út í gegn, þótt brandararnir gangi fulllangt í gaurahúmornum á köflum. Góðu sprettirnir eru hressandi tilbreyting við alvörugefnari ofurhetjumyndir samtímans. Deadpool er að slá öll aðsóknarmet um þessar mundir og því greinilegt að áhorfendur þyrstir í gamansama ofurhetju sem er líka stranglega bönnuð innan sextán.

Löng barátta

Deadpool sjálfur er leikinn af Ryan Reynolds, sem hefur lengi barist fyrir því að þessi mynd verði að veruleika, og hann nær persónunni mjög vel. Blandan af sjálfmeðvitund, gríni, geðveiki og alvöru er reglulega góð og Deadpool lifnar við á tjaldinu á skemmtilegan hátt. Reynolds ber myndina alfarið uppi og þótt aðrir leikarar og persónur séu ágætar, þá er Deadpool stjarnan og hann nýtur þess í botn. En þar komum við líka að helsta vandamáli myndarinnar: sköpunargleðin fær alla sína útrás í gegnum titilpersónuna, en allt umhverfis hana er álíka formúlukennt og hefðbundið og í akkúrat þeim ofurhetjumyndum og sögum sem Deadpool ætti að vera að gera grín að. Vissulega er það stundum hluti af húmornum – að hann sé sá eini í hópnum sem fatti hvað þetta er allt saman fyrirsjáanlegt – en á heildina litið nær kvikmyndin aldrei almennilega að samræma satíru aðalpersónunnar og söguna sjálfa. Kvikmyndin ávarpar það í raun strax í upphafi að við séum að fara að horfa á ósköp venjulega ofurhetjumynd, með engri venjulegri ofurhetju, og því miður er það einmitt raunin. Fyrir vikið er myndin vannýtt tækifæri til að hrista virkilega upp í ofurhetjugeiranum og ég vildi að höfundarnir hefðu leyft sér að leika sér mun meira með formið, í stað þess að eyða öllu púðrinu í Deadpool sjálfan. Sem dæmi má nefna þegar Wade hittir Vanessu í fyrsta sinn og myndin virðist ætla að stefna beint í hlutgerða kynlífssenu með henni, en fer þess í stað í allt aðra átt og Deadpool útskýrir sjálfur að hann ætli ekki að koma fram við hana sem flata Hollywood kvenpersónu, heldur vilji hann kynnast henni í raun og veru – en síðan verður Vanessa ekkert annað en dúkkulísu-kvenpersóna sem virðist sérskrifuð sem viðfang fyrir karlkyns nörda og endar í bæði flötu og fyrirsjáanlegu hlutverki. Svo virðist sem að höfundarnir hiki ekki við að skrifa gagnrýni inn í Deadpool, en þori síðan ekki að fylgja henni sjálfir eftir – vilja bæði eiga kökuna og borða hana, eins og maður segir.

Carol

Færum okkur þá frá yfirgangi kjaftforu ofurhetjunnar yfir í lágstemmda sögu um ást tveggja kvenna í New York snemma á sjötta áratugnum í kvikmyndinni Carol eftir Todd Haynes. Hún byggir á skáldsögunni The Price of Salt eftir Patriciu Highsmith frá 1952, sem er að hluta til sjálfsævisöguleg. Highsmith var sjálf samkynhneigð og kveikjan að sögunni var víst sú sama og kveikjan að sambandi persónanna: ung kona sem vinnur í verslun nær augnsambandi við eldri konu og þær deila augnabliki, að minnsta kosti í huga ungu konunnar. Highsmith kynntist konunni aldrei sjálf, en skrifaði skáldsöguna sem nokkurs konar fantasíu út frá þessu augnabliki, og byggði persónu Carol að hluta á fyrrum ástkonu sinni, sem gekk í gegnum svipaðar fjölskylduraunir og Carol gerir í myndinni.

Titilpersónan er leikin af Cate Blanchett og unga konan, Therese Belivet, er leikin af Rooney Mara. Myndin segir frá sambandi þeirra og er í senn grípandi ástarsaga og djúp hugleiðing um stöðu samkynhneigðra kvenna sem eru nær ósýnilegar í samfélaginu. Allt kraumar undir yfirborðinu í myndinni, hvert einasta samtal er toppurinn á stærri ísjaka, allt sem er ósagt kemur fram með hjáleiðum í leikstjórninni, myndatökunni, og ekki síst meistaralegum leik beggja kvenna, sem draga mann svo nærri sér eftir því sem á líður að sem áhorfanda leið mér nánast eins og þriðja hjólinu í félagsskap þeirra. 

Farið í bíó!

Segjum það bara hreint út: Carol er ein besta mynd sem ég hef séð í langan tíma og ég man varla eftir því hvenær ég sogaðist síðast svona inn í ástarsögu. BAFTA-verðlaunin voru afhent á Englandi nú um helgina og þar var Carol með flestar tilnefningar – níu talsins, jöfn Bridge of Spies – en hlaut ekki ein einustu verðlaun og ég skil það ekki! Hún hlaut einnig nokkrar Óskarstilnefningar, en var því miður snuðuð um bestu mynd og leikstjórn. Ég skal reyna að kryfja eigin hrifningu á myndinni og verð þá að byrja á því að játa að ég fór inn með heilmiklar væntingar. Ég hef heyrt vel af myndinni látið síðan hún var frumsýnd í fyrra, ég er hrifinn af leikstjóranum Todd Haynes og mikill aðdáandi Cate Blanchett, og er með sérstaklega veikan blett fyrir fagurfræði sjötta áratugarins. Leikstjórinn Haynes hefur reglulega sótt innblástur til eftirstríðsáranna í Bandaríkjunum og kemur jafnframt úr tilraunakenndum og róttækum bakgrunni, sem lykilfígúra í hinni svokölluðu New Queer Cinema bylgju á tíunda áratugnum, enda snúast myndir hans iðulega um tvöföld líf, um utangarðsfólk, um hugmyndir eða hegðun sem ögrar hefðum og vanafestu, og ekki síst um samkynhneigð og samfélag. Af fyrri myndum má nefna Poison frá 1991, sem gerði allt vitlaust á sínum tíma, glysrokkmyndina Velvet Goldmine frá 1998, I'm Not There um Bob Dylan frá 2007, og Far From Heaven frá 2002, sem tekur einnig fyrir samkynhneigð og önnur tabú á sjötta áratugnum.

Það þykir merkilegt að Haynes hefur fundið sér leið inn í meginstrauminn, án þess að hafa gert listrænar málamiðlanir eða þurft að breyta sjálfum sér. Carol á margt sameiginlegt með fyrri myndum hans, þótt hún sé lágstemmdari en margar þeirra, og er bæði mjög aðgengileg og frumleg kvikmynd – með öðrum orðum á hún erindi bæði við meginstrauminn almennt og aðdáendur Haynes frá því í gamla daga. Allt frá fyrsta skoti sat ég dáleiddur – nærmynd af ræsisloki sem færir okkur síðan upp á götur New York borgar árið 1952 til að dást að þeim draumkennda heimi sem kvikmyndin dregur fram. Haynes er þekktur fyrir að leggja mikla undirbúningsvinnu í úrklippubækur til að miðla réttu stemningunni til samstarfsfólks síns og það hefur greinilega sín áhrif, því Carol er eins og ferðalag aftur í tímann, sem verður þeim mun sterkara í gegnum litríka myndatöku Edward Lachmans, en myndin er tekin upp á 16mm filmu til að gefa rétta tóninn. Haynes hikar ekki við að dvelja við undarleg sjónarhorn, gefa þögninni í lífi aðalpersónanna vægi, enda er þögnin og bælingin svo stór hluti af söguheiminum og það endurspeglast í uppbyggingu myndarinnar. Sjónarhornið færist á milli þess að vera kuldalegt, brotakennt og fjarlægt – í gegnum dyr, ganga, glugga og rigningu – yfir í algjöra nánd, þegar það á við, og þótt Carol snúist ekki á áberandi hátt um sjónarspil, þá er vel þess virði að sjá hana í bíó upp á innlifunina sem skapast í gegnum myndrænu túlkunina á innra lífi og togstreitu aðalpersónanna. En þótt ég hafi gleymt mér í aðdáun á períódunni, búningunum og útlitinu fyrst um sinn, þá er það leikur Blanchett og Mara sem tælir mann inn í söguna. Stemningin er kynþokkafull og seiðandi, án þess að verða augljós eða tilgerðarleg. Það tengist eflaust því að Haynes gerir hér meðvitaða tilraun til að ögra hinu hefðbundna karllæga sjónarhorni kvikmyndanna og stúderaði þannig sérstaklega kvenljósmyndara frá tímabilinu, á borð við Vivian Maier, til að sækja innblástur fyrir sjónræna þáttinn. Rétt eins og bókin eftir Highsmith var mikilvægt innlegg í menningu samkynhneigðra á sínum tíma, og er enn talin brautryðjendaverk hvað það varðar, þá er Carol í grunninn róttæk saga um fólk sem fær ekki að elskast vegna samfélagslegra fordóma og þöggunnar. Þannig er myndin þematískt áframhald á þeim áherslum sem Haynes hefur skoðað í gegnum árin, og einn helsti styrkleiki Carol er einmitt hversu vel honum tekst að færa okkur inn í reynsluheim elskendanna, leyfir okkur að upplifa sterka og grípandi ástarsögu, í raun óháð allri kynhneigð eða kyngervi – þótt það sé líka óaðskiljanlegur hluti sögunnar – til að minna okkur á að ástin gerir slík skilgreiningarmörk og hópaskiptingu að engu. Að lokum ber að nefna handritshöfundinn og leikskáldið Phyllis Nagy, sem var jafnframt vinkona Patriciu Highsmith, en hún hefur skrifað glæsilegt handrit og staðið í ströngu árum saman til að koma bókinni yfir á hvíta tjaldið. Stritið var sannarlega þess virði, því útkoman er eftirminnileg, einlæg, frumleg, grípandi og gullfalleg kvikmynd sem ég hlakka til að horfa á aftur.