De Mistura reynir að lægja öldur

04.01.2016 - 17:50
epa05025429 United Nations Special Envoy for Syria Staffan de Mistura during a news conference after an international conference on Syria, in Vienna, Austria, 14 November 2015. The international community plans to meet in Vienna to get to grips with the
Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna.  Mynd: EPA  -  APA
Staffan de Mistura, erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, hélt í dag til Sádi-Arabíu og ætlar þaðan til Írans til að reyna að draga úr spennunni milli ríkjanna. Loftferðayfirvöld í Sádi-Arabíu tilkynntu í dag að öllu flugi til og frá Íran hefði verið hætt.

Sádi-Arabar slitu í gær stjórnmálasambandi við Íran eftir að æstur múgur réðst á sendiráð landsins í Teheran og ræðismannsskrifstofu í Mashad, næst stærstu borg Írans. Deila ríkjanna blossaði upp í fyrradag eftir að Sádi-Arabar tóku af lífi sítaklerk sem naut mikillar virðingar í Íran og víðar.

Barein og Súdan hafa einnig slitið stjórnmálasamskiptum við Íran og fordæmt árásina á sendiráðið. Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa auk þess kallað heim sendiherra sinn frá Íran og dregið úr diplómatískum samskiptum við landið. Arababandalagið boðaði í dag til neyðarfundar um málið á sunnudag að beiðni Sádi-Araba.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddi við Mohammad Javad Zarif og Adel Al-Jubeir, starfsbræður sína í Íran og Sádi-Arabíu, í síma í dag og hvatti ríkin til að halda ró sinni. Hann segir brýnt að draga úr spennunni milli þeirra. Í Theheran fóru þúsundir manna út á götur þriðja daginn í röð og fordæmdu Sádi-Araba og aftökuna á sítaklerknum.