Danskir leigubílstjórar mótmæla Uber

14.02.2016 - 06:27
epa05153039 Thousands of London black cab taxis drivers block central London during a protest in central London, Britain, 10 February 2016. Black cab taxi drivers are protesting against TFL decision to grant Uber taxis a private hire licence. Uber has
Þúsundir leigubílstjóra lokuðu götum í Lundúnum á miðvikudag til að mótmæla starfsemi Uber á Bretlandi  Mynd: EPA
Umferðaröngþveiti myndaðist í miðborg Kaupmannahafnar í gærkvöldi þegar um 300 leigubílstjórar tóku sig saman og lokuðu umferð til og frá Kóngsins nýjatorgi og fleiri stöðum til að mótmæla seinagangi stjórnvalda við að koma böndum á ökuþjónustuna Uber. Segja leigubílstjórarnir Uber stunda óheiðarlega og ólögmæta samkeppni á leigubílamarkaðnum, og krefjast þess að stjórnvöld grípi inn í með lagasetningu.

Nadeem Rasool, talsmaður leigubílstjóranna, sagði Uber nú hafa verið með starfsemi í Danmörku í hálft ár án þess að greiða nokkra skatta eða gjöld. Leigubílstjórar greiði hins vegar sína skatta og gjöld samviskusamlega, eins og þeir hafi alltaf gert. Þetta sé einfaldlega ekki réttlátt og geti ekki gengið svona lengur.

Leigubílstjórarnir fengu leyfi fyrir mótmælum sínum. Þeir söfnuðust saman á Kóngsins nýjatorgi og óku síðan löturhægt eftir nokkrum nærliggjandi götum og enduðu svo aftur á Kóngsins nýjatorgi. Samkvæmt frétt danska ríkisútvarpsins vinnur dómsmálaráðuneytið nú að því að meta hvort og þá að hve miklu leyti starfsemi Uber samræmist dönskum lögum. Søren Pind, dómsmálaráðherra, skrifaði í blaðið Politiken á fimmtudag, að eðli starfseminnar væri þess eðlis að leysa þyrfti úr flóknum álitamálum í evrópskum lagabálkum áður en hægt væri að skera úr um lögmæti hennar.

Fjölmenn mótmæli hafa verið gegn starfsemi Uber víða um heim. Leigubílstjórar í Lundúnum, París, New York, Toronto, Sao Paulo og Ríó de Janeiro, Róm, Brussel, Varsjá, Melbourne og víðar hafa efnt til umferðaröngþveitis undanfarna daga, vikur og mánuði til að mótmæla Uber og álíka apparötum, svo sem Taxify, Hoppin og Wisemile. Þúsundir leigubílstjóra fylltu götur Lundúna í mótmælaskyni á miðvikudag.

Er því gjarnan haldið á lofti að starfsemin sé ógn við tilvist leigubílstjórastéttarinnar og ekki síður við öryggi farþega. Réttinda- og tryggingamál þeirra sem aki undir merkjum Uber séu í algjörum ólestri og ekkert eftirlit með hæfni þeirra sem aki undir því merki. Auk þess starfi fyrirtækið sjálft á dökkgráu svæði innan fyrirtækja- og skattalöggjafar landanna sem það er með starfsemi í.

Uber hefur verið bannað að reka starfsemi sína í Tælandi, Búlgaríu, Nevada-ríki í Bandaríkjunum, nokkrum borgum á Indlandi og víðar. Uber hefur einnig gefist upp á að reka sína starfsemi á fjölmörgum stöðum vegna andstöðu heimamanna. Það á við um Spán í heild sinni, Suður-Kóreu og þónokkrar bandarískar borgir. Þá hefur starfsemi þess verið bönnuð að hluta í Hollandi, Þýskalandi, Belgíu og hluta Ástralíu, og finnska lögreglan hvetur borgara til að tilkynna bílstjóra, sem segjast aka á vegum Uber.

Þessi upptalning er langt í frá tæmandi og starfsemi og lagaleg staða Uber og annarra álííka þjónusta, sem bjóða akstur í gegnum samfélagsmiðla og snjallsímaforrit, er til skoðunar hjá stjórnvöldum um allan heim.