Danmörk: Krefjast afsagnar ráðherra

24.02.2016 - 07:22
Mynd með færslu
Eva Kjer Hansen, umhverfis- og matvælaráðherra, þykir hafa farið heldur frjálslega með tölur í tengslum við losun gróðurhúsalofttegunda í dönskum landbúnaði.  Mynd: DR
Danski íhaldsflokkurinn lýsti í gær vantrausti á Evu Kjer Hansen, ráðherra umhverfis- og matvælamála. Dagar hennar sem ráðherra eru mögulega taldir, spurningin er hvort það á einnig við um minnihlutastjórn Venstre. Søren Pape Poulsen, formaður Íhaldsflokksins, tilkynnti Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra þetta síðdegis í gær.

Forsætisráðherrann kallaði þá saman krísufund allra leiðtoga bláu blokkarinnar svokölluðu, Venstre, Danska þjóðarflokksins, Íhaldsflokksins og Frjálslyndra, en síðarnefndu flokkarnir þrír verja minnihlutastjórn Venstre falli.

Fundinum lauk laust fyrir miðnætti, og sagði Poulsen ekkert hafa breyst - Hansen yrði að víkja. Ástæða vantraustsins eru afar vafasamir útreikningar á losun gróðurhúsalofttegunda frá danska landbúnaðinum, sem Hansen leggur til grundvallar búvörusamningum danska ríkisins og dönsku bændasamtakanna.

Umhverfisverndarsamtök og stjórnarandstaðan saka hana um að draga upp falska og fegraða mynd af umhverfisáhrifum dansks landbúnaðar, auk þess sem hún skreyti sig með fjöðrum, stolnum úr hatti fyrri stjórnar. Hún sé í raun enginn umhverfisráðherra, heldur gangi blygðunarlaust erinda mengandi verksmiðjubúskapar.

Íhaldsmenn ætla að greiða leið búvörusamningsins gegnum þingið, þótt tölurnar séu vafasamar, en segjast ekki geta treyst ráðherra sem gefi almenningi rangar upplýsingar. Formaður Frjálslyndra segir deiluna milli Venstre og Íhaldsflokksins, og þeir verði að finna lausn.

Lars Løkke Rasmussen á nú þrjá kosti, að mati stjórnmálaskýrenda danskra. Hann getur rekið Evu Kjer Hansen úr stjórninni til að halda Íhaldsmönnum góðum. Annar möguleiki er að hann gefi íhaldsmönnum þann kost einan að leggja fram vantraustsstillögu á þinginu. Þriðji og síðasti möguleikinn er að hóta Íhaldsflokknum að blása einfaldlega til kosninga við fyrsta tækifæri. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV