Danir úða í sig skyrinu eftir hátíðarnar

16.01.2016 - 03:21
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Sala á skyri hefur stóraukist í Danmörku það sem af er janúar í samanburði við desembermánuð. Á sama tíma hefur smákökusalan, skiljanlega, hrunið. Í frétt danska ríkisútvarpsins kemur fram að sala á skyri hafi aukist um 73% frá því sem hún var í desember. Brokkólí og spínat seljast líka grimmt, salan á hinu fyrrnefnda er 58% meiri nú en í jólamánuðinum og spínatsalan hefur aukist um 54% milli mánaða. Smákökusalan hefur hins vegar dottið niður um heil 92%.

Þá kaupa Danir 40% minna af rjóma nú en á meðaldegi í desember, salan á remúlaði hefur minnkað um 25% og einig hefur dregið nokkuð úr beikonáti eftir hátíðarnar, eða um 16%. Þessar tölur eru byggðar á upplýsingum frá stórmörkuðum Kvickly, SuperBrugsen, Dagli'Brugsen, Irma og Faktas.

Umskiptin eru algjör og Lars Aarup, sem sinnir markaðsrannsóknum fyrir Coop í Danmörku, segir það ekki koma nokkrum manni á óvart. Matarvenjur Dana séu afar fyrirsjáanlegar: Í desember - og einkum yfir hátíðarnar - gúffi þeir í sig smákökum og kartöfluflögum eins og enginn sé morgundagurinn. Allir birgjar séu hins vegar með það á hreinu að þeir þurfi að eiga nóg af fersku og grófu grænmeti fyrir viðskiptavini sína um leið og nýja árið gengur í garð, því þá vilji allir bæta fyrir syndir sínar og setji hollustuna í öndvegi.